Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Afsögn Drífu kom ekki á óvart

Mynd með færslu
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. Mynd: RÚV
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR segir afsögn Drífu Snædal, forseta ASÍ ekki hafa nokkur áhrif á komandi kjaraviðræður, nema þá til hins betra. Sjálfur hefur hann ekki tekið ákvörðun um hvort hann bjóði sig fram til forseta sambandsins í haust.

„Fyrstu viðbrögð eru að í sjálfu sér kemur þessi ákvörðun ekki á óvart, það eru mín fyrstu viðbrögð, miðað við allt sem á undan er gengið kemur þessi afstaða og þessi niðurstaða ekki á óvart,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR.

Drífa Snædal  er í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér í dag harðorð í garð Ragnars Þórs og Sólveigar Önnu Jónsdóttur formanns Eflingar  hvað varðar samstarfið. Ragnar Þór segist ekki taka það til sín. Í yfirlýsingunni komi fram skoðun Drífu á hlutverki forsetaembættisins um að fá vinnufrið frá baklandinu, aðildarfélögunum almennt og sinna eigin stefnu.

Fjöldi kjarasamninga er laus í haust og ljóst miðað við ástandið og ýmsar yfirlýsingar að stefnt gæti í erfiða samningalotu. Ragnar Þór telur brotthvarf Drífu ekki hafa nein áhrif á það.

„Engin áhrif. Að sjálfsögðu mun þessi afsögn Drífu hafa nokkur áhrif á komandi kjaraviðræður vegna þess að Alþýðusambandið hefur ekkert samningsumboð inn í kjaraviðræðurnar, samningsumboðið er hjá stéttafélögunum.“

Kristján Þórður Snæbjarnarson fyrsti varaforseti ASÍ tekur við sem forseti fram að þingi sambandsins í haust. En ætlar Ragnar Þór að gefa kost á sér?

„Ég hef ekki tekið neina ákvörðun um það,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR