Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Serena Williams ætlar að hætta

epa10039457 Serena Williams of USA in action in the women's first round match against Harmony Tan of France at the Wimbledon Championships, in Wimbledon, Britain, 28 June 2022.  EPA-EFE/ANDY RAIN   EDITORIAL USE ONLY
 Mynd: EPA - RÚV

Serena Williams ætlar að hætta

09.08.2022 - 14:02
Tennisdrottningin bandaríska Serena Williams hefur tilkynnt að hún hyggist hætta eftir Opna bandaríska risamótið sem hefst í lok mánaðarins. Hún er einum risatitli frá því að jafna þá sigursælustu, Ástralann Margaret Court, sem vann 24 risamót.

Williams segir frá þessu í grein sem birtist í Vogue í dag. Hún hefur spilað sem atvinnumaður síðan 1995 og vakið mikla athygli og aðdáun ásamt systur sinni Venus en þær voru lengi vel þjálfaðar af foreldrum þeirra. Serena er ein besta íþróttakona allra tíma og hefur unnið 23 risamót og alls 73 einstaklingstitla. 

Williams verður 41 árs í september og segist hafa átt erfitt með að horfast í augu við þá staðreynd að endalokin í tennisnum nálguðust. Hún hafi raunar aðallega rætt þau við sálfræðinginn sinn. Henni sé illa við orðið „starfslok“ (retirement) og líti svo á að hún sé frekar að þróast í átt að öðrum mikilvægum hlutum en tennis. 

Williams eignaðist dótturina Olympiu í september 2017 og langar til að stækka fjölskylduna. 

„Trúið mér, ég hef aldrei viljað þurfa velja á milli tennisins og fjölskyldunnar. Mér finnst það ekki sanngjarnt. Ef ég væri karlmaður væri ég ekki að skrifa þetta því ég væri að spila og vinna meðan konan mín væri heima að sinna líkamlegu vinnunni við að stækka fjölskylduna,“ segir hún í Vogue.