Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Við þekkjum ekkert annað en vondan veg“

Mynd: RÚV / Ágúst Ólafsson
Íbúar í Bárðardal eru orðnir langþreyttir á lélegum vegum í dalnum og segja holótta vegina skemma bíla og sprengja dekk. Fulltrúi sveitarfélagsins segir afar brýnt að endurbætur á vegum komist sem fyrst á dagskrá.

Vegfarendur sem eiga leið um Bárðardal verða fljótt varir við hve vegir þar eru illa farnir. Sums staðar eru slæmar holur og víða er efsta burðarlagið horfið og þá stendur grjót upp úr veginum.

„Þetta hefur eiginlega alltaf verið svona“ 

„Við þekkjum ekkert annað en vondan veg. Og þetta hefur alltaf bara eiginlega verið svona,“ segir Ólafur Ólafsson, bóndi á Bjarnastöðum. Magnús Skarphéðinsson, bóndi í Svartárkoti, segir að íbúarnir séu orðnir mjög þreyttir á þessu. „Já já, það er langt síðan menn fengu alveg nóg af þessu. Það breytist ekkert.“

Mikil umferð um vegina Bárðardal

Dæmi eru um að Bárðdælingar keyri daglega til vinnu á Akureyri og á flestum bæjum er farið í kaupstað einu sinni eða tvisvar í viku. En það eru miklu fleiri en bara heimamenn sem keyra vegina í Bárðardal. Þaðan liggur leiðin upp á Sprengisand, auk þess sem fjöldi ferðamanna keyrir um dalinn á leiðinni upp að Aldeyjarfossi.

Erlendum ferðamönnum líst ekki á blikuna

Magnús rekur ferðaþjónustu í Kiðagili og þar gista einkum erlendir ferðamenn. „Þeim er mörgum mjög brugðið með þennan veg og eru bara fúlir,“ segir hann. 
„Og eitthvað sem menn eiga kannski ekki von á?“
„Nei, alls ekki.“

Nýbúinn að sprengja dekk á Bárðardalsvegi

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar hefur margoft ályktað um viðhald og endurbætur á malarvegum í sveitarfélaginu og þrýst á stjórnvöld, með litlum árangri. „Ég er nú sjálfur nýbúinn að sprengja dekk á Bárðardalsvegi, þannig að ég þekki þetta af eigin reynslu,“ segir Jón Hrói Finnsson, verkefnastjóri hjá sveitarfélaginu. „Þannig að þetta skapar ákveðna hættu.“

Ekki von á fjármagni fyrr en í fyrsta lagi 2025

Í drögum að fimm ára samgönguáætlun voru 900 milljónir króna ætlaðar til vegbóta í Bárðardal og 700 milljónir í næstu áætlun sem þá tæki við. Í endanlegri útgáfu færðist þetta fjármagn á næsta tímabil þar á eftir. Því er ekki gert ráð fyrir framkvæmdum fyrr en í fyrsta lagi árið 2025. „Þannig að við þurfum að halda því á lofti að fá fjármagn í þessar vegabætur aftur inn í umræðuna,“ segir Jón Hrói.