Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þriggja milljarða kostnaður við nýtt landamærakerfi

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Fyrirhugað er að fjárfesta fyrir um 3,2 milljarða króna í landamæraeftirliti og uppsetningu nýrra upplýsingakerfa á Keflavíkurflugvelli á næstu fimm árum.

Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í morgun.

Fjallað er um kerfin í frumvarpi til laga um landamæri, sem fyrirhugað er að leggja fram á þingi í haust. Það eru fyrstu heildrænu lögin sem lögð eru fram um landamæri og landamæraeftirlit en þau eru hluti af samræmdu landamæraeftirliti Schengen-ríkja.

Fréttastofa hefur áður greint frá því að meðal nýjunga sem lögin innibera sé innleiðing nýs ferðaheimildarkerfis ESB, ETIAS. Frá og með næsta ári munu ferðamenn utan ESB og Schengen þurfa rafræna heimild til að ferðast inn á Schengen-svæðið, þar með talið til Íslands, og mun hún kosta 7 evrur – um þúsund íslenskar krónur.

Morgunblaðið hefur eftir Gunnari Herði Garðarssyni, upplýsingafulltrúa ríkislögreglustjóra, að nýja kerfið taki við af eldra kerfi sem hélt utan um komur og brottfarir með stimplum í vegabréf. Það kerfi hafi verið tímafrekara og því sé innleiðing hins nýja kerfis tímabær og í samræmi við skuldbindingar Íslands gagnvart Evrópusamstarfinu.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV