Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Schröder verður ekki vikið úr Jafnaðarmannaflokknum

08.08.2022 - 14:58
epa09960500 (FILE) - Former German Chancellor Gerhard Schroeder, prior to a hearing on the 'Nord Stream 2' Baltic gas pipeline at the Bundestag in Berlin, Germany, 01 July 2020 (reissued 20 May 2022). German ex-Chancellor Schroeder will leave the board of directors of Russian oil giant Rosneft, the company announced in a statement on 20 May 2022 adding that 'it is impossible to extend his powers on the company's board of directors'.  EPA-EFE/OMER MESSINGER
 Mynd: EPA - RÚV
Gerhard Schröder, fyrrverandi kanslara Þýskalands, verður ekki vikið úr þýska Jafnaðarmannaflokknum þrátt fyrir náin tengsl sín við Vladimír Pútín Rússlandsforseta. Niðurstaða rannsóknar flokksdeildarinnar í Hannover er sú að hann hafi ekki brotið gegn reglum þótt aganefnd flokksins telji hann hafa skaðað orðspor flokksins.

Innanflokksrannsókn á kanslaranum fyrrverandi hófst í júlí eftir að sautján kvartanir bárust flokksdeildinni. Þótt hægt sé að áfrýja úrskurðinum telja lögfróðir að ekki séu miklar líkur á að slíkt beri árangur.

Schröder var kanslari Þýskalands á árunum 1998–2005. Þrátt fyrir innrás Rússa í Úkraínu hefur hann þvertekið fyrir að slíta á tengsl sín við Pútín Rússlandsforseta, sem sögð eru náin. Hann heimsótti Pútín í Moskvu í síðasta mánuði og sagði eftir hana að Rússar vildu „semja um lausn“ á stríðinu.

Schröder hefur síðustu ár unnið fyrir rússnesk orkufyrirtæki á borð við Nord Stream, Rosneft og Gazprom. Þá stóð til að hann tæki sæti í stjórn Gazprom í sumar, en hann sagði sig frá þeirri stöðu, sem og stjórnarsetu í Rosneft, vegna mikils þrýstings heiman frá.

Framferði Schröder hefur þótt hið vandræðalegasta fyrir þýska Jafnaðarmannaflokkinn og Olaf Scholz kanslara. Í vor samþykkti þýska þingið að svipta Schröder hluta þeirra fríðinda sem hann hafði átt rétt á sem fyrrverandi kanslari, þar á meðal skrifstofu og starfsfólki. Þá hefur kanslarinn fyrrverandi verið sviptur nafnbótinni heiðursborgari í Hamborg.