Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Rödd Línunnar og Magga mörgæsar er þögnuð

Carlo Bonomi sem léði Magga Mörgæs og Línunni rödd sína lést 6. ágúst 2022.
 Mynd: Skjáskot

Rödd Línunnar og Magga mörgæsar er þögnuð

08.08.2022 - 12:20

Höfundar

Harmur er kveðinn að aðdáendum Magga mörgæsar og Línunnar en maðurinn sem léði þeim báðum rödd sína er látinn hálfníræður að aldri.

Fréttin af andláti ítalska leikarans Carlos Bonomis barst sem eldur í sinu um samfélagsmiðla enda á mörgæsin unga, hann Maggi eða Pingu, aðdáendur um víða veröld.

Ítalskir miðlar greindu frá því að Bodoni hefði látist í borginni Milanó en ekki hvert banamein hans var.

Pingu býr í snjóhúsi á Suðurskautslandinu með foreldrum sínum og litlu systur. Sex þáttaraðir voru gerðar um mörgæsafjölskylduna á árunum 1986 til 2006. Bodoni lét af störfum árið 2000. 

Þættirnir eru svissneskir að uppruna en vinsældirnar má að mörgu leyti rekja til hæfileika Bonomis. Mörgæsirnar tala ekki mannamál sem tryggir það að hver og einn getur hæglega skilið hvað þeim fer á milli.

Hreyfingar og svipbrigði leirbrúðanna dýpka þann skilning svo enn frekar. Aðdáendur kvöddu Bodoni með minningum um þau áhrif hann hefði haft á líf þeirra, ekki síst með mörgæsinni Magga eða Pingu.

Japanir gerðu tvær þáttaraðir um Pingu árið 2017 en þá hafðist mörgæsafjölskyldan við í stórborg nokkurri. 

Línan stórnefjaða er öllu skapverri en mörgæsafjölskyldan en íslenskir sjónvarpsáhorfendur hafa notið hennar og raddar Bonomis um áratugaskeið.

Osvaldo Cavandolli, höfundur Línunnar, lést árið 2006 en skömmu áður gerði hann mynd um hana fyrir auglýsingaherferð Kaupþings.