Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Myndsímtal varð til þess að maður í sjálfheldu fannst

Mynd með færslu
 Mynd: Björgunarfélag Ísafjarðar
Myndsímtal varð til þess að lögregla gat staðsett mann í sjálfheldu við Bjarnarfjalli við Hvalvatnsfjörð í nótt. Lögreglan segir svæðið hættulegt en þýskur ferðamaður lést í fjallgöngu á sömu gönguleið fyrir nokkrum dögum.

Þyrla sótti manninn í morgun

Björgunarsveitir á Norðurlandi voru kallaðar út rétt tæplega fjögur í nótt eftir að tilkynning barst frá manni í sjálfheldu. Eftir nokkra leit tókst að staðsetja manninn á Bjarnarfjalli við Hvalvatnsfjörð austanmegin við Eyjafjörð, þangað sem þyrla Landhelgisgæslunnar sótti manninn.

Myndsímtal kom sér vel

Um 60 manns tóku þátt í aðgerðum sem Jóhannes Sigfússon aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra stýrði. „Það gekk í smá brasi að finna nákvæma staðsetningu en svo tókst okkur að ná myndsímtali við hann, þannig að hann gat sýnt okkur svona sitt nágrenni og sitt útsýni og þannig gátum við staðsett hann betur. Það kemur upp úr kafinu að hann er á nánast sama stað og þýski ferðamaðurinn sem lést þarna í fjallgöngu fyrir nokkrum dögumn,“ segir Jóhannes. 

Sjá einnig: Þýski ferðamaðurinn fundinn

Sá staður, er þetta hættulegt svæði? 

„Já, þetta er laust land, það er bratt í sjó fram þannig að þetta eru skriður og reynslan er að sýna okkur að svarið getur ekki verið annað en, já þetta er hættulegt svæði.“

Er einhver ástæða til að vara fólk við að vera þarna á ferli?

„Já, miðað við þessar aðstæður. Þessi leið er reyndar merkt inn á einhver kort. Þetta er merkt inn sem gönguleið og það þarf svona aðeins ofan í saumana á þeim hlutum svona í framhaldi af þessari reynslu en það er ástæða til að vara við ferðum í þessum skriðum, já.“

Maðurinn ekki slasaður

Þyrla flutti manninn á sjúkrahúsið á Akureyri í morgun þar sem hann dvelur nú. „Eftir því sem ég kemst næst þá er staðan á honum nokkuð góð, svona líkamlega alla veganna.“