Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Margir mættir að gosstöðvunum þrátt fyrir lokun

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RUV
Áfram verður lokað fyrir aðgengi almennings að gosstöðvunum í dag vegna veðurs og framkvæmda. Á meðan á að laga gönguleið A, sem er sú leið sem flestir ganga að gosstöðvunum.

Þá verður enginn björgunarsveitarmaður á fjallinu í dag til aðstoðar og erfitt verður því að tryggja öryggi fólks á staðnum.

Runólfur Sveinbjörnsson gröfumaður er að störfum í Meradölum. Hann segir marga vera á svæðinu þrátt fyrir lokunina. Hann segir að fyrst og fremst verði leiðin inn að gígnum löguð þannig að það sé aðgengi fyrir björgunarsveitir og fólk sem ætlar að gera sér ferð til að skoða gosið.

Margir grípi í gallabuxur fyrir gönguna

Spurður hvort að hann hafi séð einhverja á svæðinu þrátt fyrir að lokað sé í dag segist Runólfur vera búinn að sjá helling af fólki.

„Jájá, það er hellingur af fólki hérna og eiginlega eingöngu erlent,“ segir Runólfur í samtali við fréttastofu.

Hann segir að allur gangur sé á hvernig fólkið sé í stakk búið fyrir gönguna, margir séu í gallabuxum. „Það gengur á með skúrum, þoku og roki og það er heldur að kólna finnst mér heldur en hitt. Þetta lítur ekki vel út,“ segir Runólfur.

rebekkali's picture
Rebekka Líf Ingadóttir
Fréttastofa RÚV