Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Halda áfram heræfingum við Taívan

08.08.2022 - 13:45
Erlent · Asía · Kína · Taívan · Stjórnmál
epa10109619 A Taiwanese Air Force Mirage 2000-5 fighter jet approaches an airbase for landing in Hsinchu, Taiwan, 07 August 2022. Following a visit of US House of Representatives Speaker Pelosi to Taiwan, the Chinese military started to hold a series of live-fire drills in six maritime areas around Taiwan's main islan from 04 to 07 August 2022.  EPA-EFE/RITCHIE B. TONGO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Kínverski herinn tilkynnti upp úr hádegi um að heræfingum við Taívan verði haldið áfram. Fimm daga æfingum, þeim stærstu í sögu kínverska flotans, átti að ljúka í gær. Nú stendur til að leggja áherslu á áhlaup á sjó og að verjast kafbátum.

Kínverjar hófu heræfingar sínar umhverfis Taívan þegar Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, heimsótti Taívan. 

Kínverjar telja eyjuna óaðskiljanlegan hluta ríkis síns. Hún nýtur þó sjálfstjórnar og þótt Bandaríkjamenn viðurkenni ekki sjálfstæði eyríkisins eiga þeir í óformlegu sambandi við Taívan.

Varnarmálaráðuneyti Taívans sagði að tuttugu og einni kínverskri herflugvél hafi verið flogið inn á loftvarnarsvæði Taívans í dag. Meðal annars orrustuþotur sem flogið var yfir Taívanssund.

Kínverski herinn tilkynnti aldrei með formlegum hætti um að fyrri heræfingunni væri lokið. Hann dró þó til baka tilmæli um að forðast þau svæði þar sem æfingarnar voru haldnar.