Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Guðlaug Edda með slæma matareitrun og keppir ekki á EM

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Guðlaug Edda með slæma matareitrun og keppir ekki á EM

08.08.2022 - 09:50
Þríþrautarkonan Guðlaug Edda Hannesdóttir keppir ekki á Meistaramóti Evrópu sem hefst í vikunni. Hún tilkynnti þetta á samfélagsmiðlun sínum í morgun.

Ekki er svo langt síðan Guðlaug Edda steig upp úr erfiðum meiðslum en nú setur slæm matareitrun strik í reikninginn. Sú sama og hjá kærastanum hennar, sundmanninum Antoni Sveini McKee sem er líka á leið á mótið

„Í síðustu viku var ég lögð meðvitundarlaus inn á spítala með 41 stiga hita og niðurgang (með blóði). Eftir að við náðum hitanum niður var ég send í rannsóknir, og nú hefur verið staðfest að ég fékk mjög slæma matareitrun (bakteríusýking í meltingarfæri) sem olli miklum bólgum í þörmum með þessum einkennum. Ég lá inn á spítalanum í 3 daga og hef síðan ég kom heim verið að ná mér en það hefur ekki verið nóg til að koma til baka í fullar æfingar,“ segir Guðlaug Edda í færslunni. 

„Vegna þessa og fyrir mína eigin heilsu er ég tilneydd til þess að draga mig úr keppni á Evrópumeistaramótinu í Munich. Eins og þið getið ímyndað ykkur er þetta mikið áfall fyrir mig. Mér þykir svo leitt að ég get ekki verið í keppninni og keppt stolt fyrir Íslands hönd. Það er ekki oft sem þríþraut er sýnd í beinni í sjónvarpinu á Íslandi og þetta var sú keppni sem ég hlakkaði til mest í ár. Ég bið ykkur að sýna mér skilning og vonast til að koma til baka sem allra fyrst.“

RÚV sýnir beint frá Meistaramótinu frá og með fimmtudegi. Ísland á þátttakendur í frjálsíþróttum, fimleikum og hjólreiðum og á sama tíma er keppt í EM í sundi.