Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Færeyingar óánægðir með leiguna á gamla Herjólfi

08.08.2022 - 03:38
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Færeyingar sem búa á Suðurey, syðstu eyju Færeyja, hafa mótmælt því að íslenska skipið Herjólfur III, eða gamli Herjólfur, taki tímabundið við siglingum til og frá höfuðborginni Þórshöfn. Færeyska Kringvarpið greinir frá.

Aðalferja Suðureyinga, Smyrill, þarfnast viðgerða og verður bundin við bryggju í sex vikur. Strandfaraskip Landsins, ríkisstofnun Færeyja sem sér um almenningssamgöngur, leigði gamla Herjólf af Vegagerðinni í júní. Honum er nú ætlað að sigla svokallaða Suðureyjaleið í Færeyjum, aðallega sem vöruflutningaskipi en einnig sem afleysingaferju með farþega ef þörf krefur.

Gamli Herjólfur óhentugur í afleysingar fyrir Smyril

Þessu hafa íbúar Suðureyjar mótmælt og krefjast þess að fá hentugra skip áður en færeyska skipið Smyrill fari til viðgerðar, gamli Herjólfur sé bæði minni og fari hægar yfir en Smyrill. Þau óttist að færri ferðir til og frá höfuðborginni valdi vöruskorti og að eyjaskeggjar einangrist vegna skertra samgangna. 

Sem dæmi þá rúmar gamli Herjólfur 67 bíla, á meðan Færeyingurinn Smyrill tekur um 200 bíla. 

Yfirvöld í Færeyjum hafa svarað gagnrýninni og segja það nú vera til skoðunar að fá annað skip til að sigla Suðureyjaleiðina. Ekki verði þó komist hjá því að ráðast í viðgerðir á færeyska skipinu, sem missi annars siglingaleyfi.