Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Ég sá rauðan punkt að myndast“

Mynd: Alain Bertil / Alain Bertil
Einn af fyrstum sem sáu eldgosið í Meradölum á miðvikudag var franskur áhugamaður um eldfjöll. Hann hefur verið viðstaddur 60 eldgos á frönsku eyjunni Reunion. Hann hrósar íslenskum stjórnvöldum um fumlaus viðbrögð og algengi almennings.

Rétt fyrir klukkan hálf tvö á miðvikudag 3 ágúst, tók Alain Bertil nokkrar myndir af gosinu í Meradölum, aðeins nokkrum mínútum eftir að það hófst.

„Fyrst fann ég goslyktina sem ég þekki frá eldgosum á Réunion og áttaði mér strax á að eitthvað hefði gerst. Ég var staddur í beygju á göngustígnum og sá rauðan punkt að myndast. Samtímis opnaðist sprungan og teygði sig um hæðina. Ég var svo heppinn að vera vitni að upphafi gossins, sem er í raun ótrúlegt"- segir hann.

Alain er staddur hér á landi á vegum borgaryfirvalda í Sainte-Rose á Réunion; til stendur að koma á samstarfi um ferðamennsku og menningarmál sem byggist á sameiginlegri reynslu þessara tveggja eldfjallaeyja. Alain er einn helsti sérfræðingurinn um eldfjöllin á Réunion og hefur verið viðstaddur um sextíu eldgos í dyngju sem kallast Piton de la Fournaise - síðan á sautjándu öld hefur hún gosið um hundrað og fimmtíu sinnum.

Hann segir eldgosið í Meradölum ekki ósvipað þeim sem hann hefur upplifað, en stóri munurinn sé hvernig almannavarnir og lögregla bregðist við hér á landi.

„Reunion auglýsir sig sem áfangastað þar sem eldfjöll geta gosið. Í flestum auglýsingum fyrir túrísma sýnum við eldfjöllin en þegar gos hefst lokum við svæðinu fyrir almenningi og fólkið kemst ekki nálægt því. Við ættum taka Ísland okkur til fyrirmyndar, finnst mér. Hér er fólki treyst að sýna þroska til að sjá eldgos í návígi".  

Alain Bertil, franskur áhugamaður um eldfjöll frá Reunion eyjunni.
 Mynd: Alain Bertil
Alain Bertil og gosið í Meraldölum að hefjast kl 13:30 s.l. miðvikudag.
margreta's picture
Margrét Adamsdóttir