Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Vissi ekki hvort þetta væri pútt fyrir sigri eða ekki“

Mynd: RÚV / RÚV

„Vissi ekki hvort þetta væri pútt fyrir sigri eða ekki“

07.08.2022 - 20:19
Nýkrýndir Íslandsmeistarar í golfi voru að vonum ánægð með árangurinn á verðlaunaafhendingu í Vestmannaeyjum í dag. Tilfinningin var þó sérstök þar sem aflýsa þurfti síðustu 18 holum mótsins vegna veðurs og því aðeins leiknar 54 í stað 72 holna. Mótstjórnendur gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að klára mótið en fyrstu keppendur fóru af stað klukkan sex í morgun.

“Það var leiðinlegt að geta ekki klárað þetta,“ segir Brynjar Eldon Geirsson, framkvæmdastjóri Golfsambands Íslands. „Okkur tókst að senda keppendur út fyrr í morgun en við ætluðum okkur. Okkur tókst að leika í fjóra tíma í morgun áður en veðrið skall harkalega á okkur. Við héldum að við værum að ná þessu en síðan var rigningin okkur ofviða seinni partinn.“

Óvænt sigurpútt

Perla Sól Sigurbrandsdóttir varð Íslandsmeistari í kvennaflokki. Hún varð einu höggi á undan Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur.

„Hún er bara mjög góð en mjög skrítin líka því maður vissi ekkert hvort maður væri að fara að spila eða ekki,“ segir Perla um tilfinninguna. „Og gærdagurinn. Maður vissi ekki hvort þetta væri pútt fyrir sigri eða ekki.“

Á 18. holunni í gær vippaði Perla glæsilega inn á flöt og púttaði svo ofan í fyrir pari. Það reynist sigurpúttið á mótinu. „Átjánda hollan öll. Hvernig hún fór, alveg magnað. Bara eitt högg,“ segir Perla.

Perla varð Evrópumeistari 16 ára og yngri fyrr í sumar. „Maður reynir að ná eins langt og maður getur,“ segir hún um framhaldið.

Elskar að spila í Eyjum

Kristján Þór Einarsson varð Íslandsmeistari karlameginn eftir frábæran þriðja hring í gær þar sem hann lék á sex höggum undir pari.

„Maður fer náttúrulega inn í mótið til þess að spila 72 holur,“ segir Kristján. „Því miður, í sumar, þá er þetta annað 72 holu mótið sem hefur þurft að stytta í 54 holur. Við lentum í því sama í meistaramótinu. En því miður þá er þetta bara svona.“

Þetta er annar Íslandsmeistaratitill Kristjáns, báðir hafa komið í Vestmannaeyjum. „Ég bara elska að vera hérna. Ég er héðan, móðurættin mín er héðan. Þetta er einstakur staður,“ segir hann.

Viðtölin við Perlu, Kristján og Brynjar má sjá í spilaranum hér að ofan.