Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Perla Sól og Kristján Þór Íslandsmeistarar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Perla Sól og Kristján Þór Íslandsmeistarar

07.08.2022 - 15:46
Aflýsa þurfti keppni á síðasta hring Íslandsmótsins í golfi í Vestmannaeyjum í dag. Því voru þau sem léku fyrstu þrjá hringina af fjórum á fæstum höggum krýnd Íslandsmeistarar. Það voru þau Perla Sól Sigurbrandsdóttir, Golfklúbbi Reykjavíkur, og Kristján Þór Einarsson, Golfklúbbi Mosfellsbæjar. Fjórtán ár eru síðan Kristján Þór varð síðast Íslandsmeistari. Þá hafði Perla Sól ekki náð tveggja ára aldri.

Í kvennaflokki varð hin 15 ára Perla Sól Sigurbrandsdóttir næst yngsti Íslandsmeistari sögunnar. Hún lék hringina þrjá á einu höggi undir pari. Hún lék einu höggi betur en þrefaldi Íslandsmeistarinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. Perla Sól bjargaði pari glæsilega á síðustu holunni í gær og það tryggði henni á endanum sigur á mótinu. Perla Sól varð Evrópumeistari 16 ára og yngri fyrr í sumar.

Þriðja varð annar þrefaldur Íslandsmeistari, Guðrún Brá Björgvinsdóttir. Hún náði sér ekki á strik á mótinu og endaði tíu höggum á eftir Perlu Sól.

Annar titilinn í Eyjum

Kristján Þór Einarsson var krýndur Íslandsmeistari í golfi í annað sinn í dag. Fjórtán ár eru síðan hann vann titilinn síðast, þá einnig í Vestmannaeyjum. Kristján Þór var með tveggja högga forystu eftir þrjá hringi eftir að hafa leikið á sex höggum undir pari í gær. Hann var á pari eftir tvo hringi og því sex höggum undir pari samanlagt.

Sigurður Bjarki Blumenstein og Kristófer Orri Þórðarson urðu jafnir í öðru sæti. Sigurður jafnaði vallarmetið í Eyjum í gær er hann lék á 62 höggum. Þeir Sigurður og Kristófer enduðu fjórum höggum undir pari samanlagt.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kristján Þór og Perla Sól með bikarana eftir verðlaunaafhendingu í dag.