Var kominn með bíladellu fjögurra ára

Mynd: Jóhannes Jónsson / Sumarlandinn/RÚV

Var kominn með bíladellu fjögurra ára

06.08.2022 - 16:00

Höfundar

Ökuþórinn Viktor Hjörvarsson fékk snemma áhuga á mótorsporti. Hann á heilan helling af bílum og mótorhjólum og rekur sitt eigið verkstæði, sem er hentugt þar sem hann á um það bil fimmtán ökutæki.

Viktor Hjörvarsson, sem er fyrrverandi Íslandsmeistari í kvartmílu, var ungur þegar áhuginn á bílum byrjaði. „Fjögurra-fimm ára var ég strax kominn með dellu. Ég eignaðist mitt fyrsta mótorhjól sex-sjö ára, svo bara í framhaldi af því hélt þetta áfram,“ segir hann í samtali við Sumarlandann sem kíkti í heimsókn.

Kærasta Viktors er líka með mikla bíladellu svo parið sameinast um þennan áhuga. Hver sem er getur pantað sér tíma á verkstæði Viktors en hann sérhæfir sig í viðgerðum á gömlum amerískum bílum og mótorhjólum.

Sumarlandinn verður á flakki í sumar og hittir landann fyrir í sínu náttúrulega umhverfi, uppi á fjöllum, úti í garði, inni í skógi og allt um kring. Sumarlandinn leitar uppi áhugaverða viðburði og skemmtilegar sögur. Sumarlandinn tekur líka lagið ef vel liggur á honum.