„Það er svo næs að þurfa bara að elska“

Mynd: RÚV / RÚV

„Það er svo næs að þurfa bara að elska“

06.08.2022 - 23:20

Höfundar

Við verðum að fræða fólk meira, standa saman og sýna samstöðu í verki eins og gerðist í dag og það var stórkostlegt, segir Páll Óskar Hjálmtýsson, söngvari og baráttumaður fyrir réttindum hinsegin fólks. Gríðarmikil þátttaka í Gleðigöngunni í dag markaði hápunkt Hinsegin daga 2022.

Fjöldi fólks fagnaði fjölbreytileikanum í blíðskaparveðri í miðborg Reykjavíkur í dag með því að leggja baráttunni lið og fylgjast með Gleðigöngunni, hápunkti Hinsegin daga í Reykjavík, eða Reykjavík Pride, hátíðar hinsegin samfélagsins á Íslandi. 

En þrátt fyrir gleðina hafa margir áhyggjur af bakslaginu sem komið er í baráttuna og segist Páll Óskar finna það á eigin skinni.

„Það er engu líkara en að öll spjót standi núna á trans fólki og kynsegin fólki. Í þeirra garð er ég að heyra nákvæmlega sama munnsöfnuð og ég fékk á mig fyrir þrjátíu árum síðan.“

Páll Óskar segir að samstaðan sé mikilvæg og að fræðsla sé lykilatriði í baráttunni gegn hatursorðræðu og fordómum.  

„Því miður þá sjáum við þetta alltaf meira og meira á samfélagsmiðlum. Þess vegna verðum við að fræða fólk meira, standa saman og sýna samstöðu í verki, eins og gerðist í dag og það var stórkostlegt,“ segir Páll Óskar.

Kærkomin regnbogaganga

„Það er svo næs að þurfa bara að elska,“ söng leikarinn Bjarni Snæbjörnsson klæddur bleikum jakka svífandi yfir mannfjöldanum í göngunni, sem lagði af stað á slaginu tvö niður Skólavörðustíg, í fyrsta skipti í þrjú ár. Vegna heimsfaraldursins var gangan blásin af í fyrra og hittifyrra. 

Litagleðin var allsráðandi og stemningin ósvikin. Fjölmargir fylgdust með göngufólki og vildu með því sýna mannréttinda- og réttlætisbaráttu hinsegin fólks stuðning. Fjölmargir vagnar voru fullir af fólki sem dansaði í takt við dúndrandi tónlist.

„Það er bara mikilvægt þeim sem eru í þessum hópi og mér finnst það sérstaklega í ár af því að maður hefur orðið var við svolítið bakslag í baráttunni og sýna þeim kærleik og stuðning í verki með því að mæta,“ segir Eyrún, einn þátttakenda í göngunni.

Mikilvægur gleðidagur

Helga Margrét Marzellíusdóttir segir gönguna og samstöðuna sem felist í fjölda þátttakenda mikilvæga. „Þetta er mjög mikilvægur dagur fyrir okkur öll. Sýnileikinn skiptir alltaf mál og sem betur fer er hér svakalegur fjöldi fólks núna að fagna með öllu hinsegin fólki og öllum regnboganum. Þannig að þetta skiptir öllu máli. Við höfum ekki getað gengið í nokkur ár þannig að þetta er mikill gleðidagur.“

Aðspurð hvort hún finni mun á þessari göngu og þeirri fyrstu, segir Sigurgyða: „Já já. Það voru bara um þúsund manns í göngunni fyrst og við vorum niður á Ingólfstorgi, allir voru bara að hlusta á Palla og smella fingrum sko.“

Skiptir máli að sýna samstöðu

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir tók einnig þátt í gleðinni. „Þú sérð það bara hér að þetta skiptir ótrúlegu máli. Við höfum fylgst með því að það hefur orðið ótrúleg afturför. Það leyfist að segja alls konar hluti og það er líka það sem þessi hópur finnur fyrir og segja og á það vil ég hlusta,“ segir utanríkisráðherra.

„Ég held að atburðir undanfarinna ára sýni að þetta sé barátta sem stöðugt þarf að vera í gangi. Ég er bara stoltur af mætingunni hér í dag. Íslendingar eru að sýna í verki að við stöndum með hinsegin samfélaginu,“ segir Ágúst Ólafur Ágústsson fyrrverandi þingmaður, sem var í miðbænum í dag ásamt þeim tugþúsundum sem mættu til að sýna baráttunni samstöðu.

Í spilaranum hér að ofan er hægt að horfa á umfjöllun um málið í kvöldfréttum.

Tengdar fréttir

Mannlíf

Tár, bros og hælaskór - gleðin við völd í miðbænum

Sjónvarp

„Ætlum að minnast þeirra sem fallið hafa í baráttunni“

Menningarefni

Lag Hinsegin daga 2022

Höfuðborgarsvæðið

Bankastræti verður Regnbogastræti á Hinsegin dögum