Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Jones gert að greiða nærri 50 milljónir dala í bætur

06.08.2022 - 00:23
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot
Bandaríski samsæriskenningasmiðurinn Alex Jones var í kvöld dæmdur til greiðslu 45 milljóna bandaríkjadala í refsibætur til föður og móður drengs sem var myrtur í skotárás á Sandy Hook-grunnskólann í Connecticut árið 2012.

Kviðdómur sakfelldi Jones fyrir ítrekuð ummæli hans um að árásin hafi verið skáldskapur. Hann var dæmdur til greiðslu fjögurra milljóna dala í skaðabætur í gær.

Lögmaður þeirra Scarlett Lewis og Neils Heslin, sem höfðuðu meiðyrðamálið gegn Jones, bað kviðdóminn fyrir dómsuppkvaðningu að senda skýr skilaboð um að stöðva verði gróðavæðingu falsfrétta og lyga.

Ummæli sín lét Jones meðal annars falla í þætti sínum hjá falsfréttamiðlinum InfoWars, sem Jones á.

Fyrr í réttarhöldunum sagði hagfræðingur sem foreldrar drengsins réðu að fyrirtæki Jones væru virði allt að 270 milljóna bandaríkjadala. Hann hefði sum sé hagnast umtalsvert á efni sínu.

Þórgnýr Einar Albertsson