Hörðustu átökin á Gaza í eitt ár

06.08.2022 - 12:34
epa10108368 Palestinians inspect a destroyed house that belongs to Shamlakh family after Israeli air strikes in the south of Gaza City on, 06 August 2022. According to the Palestinian ministry of health, at least Ten people were killed, including a child, in a series of Israeli airstrikes on multiple targets in the Gaza Strip including a residential apartment in neighborhood of Al-Rimal. Al-Quds Brigades, the armed wing of the Palestinian Islamic Jihad, announced that senior leader Tayseer al-Jabari was killed in the attacks.  EPA-EFE/MOHAMMED SABER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Minnst tólf hafa fallið í loftárásum Ísraelsmanna á Gazaströndinni. Þetta eru mestu átök sem þar hafa geisað í rúmt ár. Palestínumenn hafa svarað með eldflaugaárásum í átt að Ísrael..

Spennan á Gazaströndinni hefur farið stigvaxandi undanfarna daga, eftir að Ísraelsmenn handtóku einn af leiðtogum jíhadistahreyfingarinnar PIJ. Í kjölfarið lokuðu Ísraelsmenn landamærunum að Gaza af ótta við hefndaraðgerðir vegna handtökunnar. PIJ starfar náið með Hamas, sem nú fer með völdin á Gaza. Lokunin hefur valdið því að vöruflutningar til Gaza hafa verið hverfandi, og meðal annars varð eina raforkuverið á Gaza óstarfhæft í morgun vegna olíuskorts.

Í gær gerðu Ísraelsmenn svo loftárásir á Gaza, þar sem minnst tólf létu lífið, þar af 5 ára stúlka, og áttatíu særðust. Einn hinna föllnu er einn af leiðtogum PIJ. Ísraelsk stjórnvöld sögðu í gærkvöld að tilgangur árásarinnar hefði verið að koma í veg fyrir yfirvofandi árás PIJ. Tvær vopnageymslur og sex eldflaugageymslur hafi verið eyðilagðar. Þá hafi Palestínumenn skotið um 160 eldflaugum í átt að Ísrael en þær ollu engu tjóni. Ísraelsmenn hafa auk þess handtekið 19 leiðtoga jíhadista, að þeirra sögn vegna ógnar sem af þeim stafar.

Þetta eru mestu átökin sem brotist hafa út á Gaza-svæðinu frá því 11 daga átök lögðu Gaza nánast í rúst í maí í fyrra. Egyptar hafa leitast við að miðla málum og AFP-fréttastofan hefur eftir embættismönnum að hugsanlega verði rætt við sendinefnd frá jíhadistum í Palestínu í dag um vopnahlé. Hvorki Jíhadistar né Ísraelsmenn segja að vopnahlé standi til. Ísraelsmenn segjast vera að búa sig undir viku til viðbótar af loftárásum.

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV