Hinsegin smellir á hátíðardegi

Mynd með færslu
 Mynd: Reykjavík Pride

Hinsegin smellir á hátíðardegi

06.08.2022 - 09:00

Höfundar

Loksins er komið að gleðigöngu Hinsegin daga eftir nokkra bið og því ekki seinna vænna að hleypa gleði í hjartað með nokkrum vel völdum hýrum smellum.

Páll Óskar - Ég er eins og ég er  

Ég er eins og ég er var lag Hinsegin daga árið 2003 og hefur verið órjúfanlegur hluti af hátíðarhöldunum síðan. Lagið er eftir söngleikjakempuna Jerry Herman en íslenskan texta skrifaði Veturliði Gunnarsson. Er lagið hvatning til allra um að vera stolt af því hver við erum og mun vafalaust óma á mörgum dansgólfum í kvöld.  


 

United Kingdolls – UK Hon?

Dragdrottningarnar A’Whora, Bimini Bon-Boulash, Lawrence Chaney og Tayce komu, sáu og sigruðu með útgáfu sinni af laginu UK Hon? í annarri þáttaröð af RuPaul’s Drage Race UK. Lagið er heilalím af bestu gerð sem býður alla velkomna hvort sem um er að ræða konur, karla eða kvára.  


Lily Allen - F*ck You

Lagið samdi hin breska Lily Allen sem pena orðsendingu til bandarískra yfirvalda sem hugðust skerða réttindi hinsegin fólks þar í landi til hjónabands. Lagið er glettið, beinskeytt og hápólitískt og á því sérstaklega vel við á degi baráttugöngu hinsegin fólks.  


Robyn - Dancing On My Own

Robyn stendur álengdar á dansgólfinu og horfir á einstaklinginn sem hún er skotin í kyssa einhvern annan. Saga sem að margir geta speglað sig í og hvað er betra en að dansa ástarsorgina í burtu? 


George Michael - Freedom

Hæfileikabúntið og fyrrum Wham-liðinn George Michael kom ekki út úr skápnum formlega fyrr en nokkrum árum eftir útgáfu Freedom, en lagið skipaði sér þrátt fyrir það strax stóran sess innan hinsegin samfélagsins ekki síst vegna texta lagsins sem líta má á sem vilja til þess að koma út úr skápnum og syngur Michael meðal annars: „I think there’s something you should know / I think it’s time I told you so / There’s something deep inside of me / There’s someone else I’ve got to be.“ 


Lady Gaga - Born This Way

Lady Gaga hefur allan sinn feril verið stoltur meðlimur hinsegin samfélagsins og barist fyrir auknum réttindum þeirra. Í Born This Way segir hún Guð ekki gera nein mistök þegar að hann skapar okkur mannfólkið og við séum öll nákvæmlega eins og við eigum að vera, hvort sem við séum hinsegin, gagnkynhneigð, trans eða sískynja, tilvistarréttur okkar allra sé sá sami.


SOPHIE - Immaterial

Söngstirnið SOPHIE kvaddi þennan heim sviplega árið 2021 en hafði mikil áhrif þrátt fyrir stutta ævi. SOPHIE var trans og vildi helst ekki að nein fornöfn væru notuð um sig. Í laginu Immaterial syngur SOPHIE um að við þurfum ekki að halda okkur innan þeirra gerva sem samfélagið hefur búið til okkur því við séum öll óhlutbundin og breytileg. SOPHIE gaf þannig trans fólki og þeim sem eru glæðigerva rödd með því að minna á að öllum er frjálst að vera eins og við erum í raun og veru.  


Limp Wrist - Want us Dead

Hinsegin harðkjarnasveitin Limp Wrist var stofnuð í Bandaríkjunum undir lok tíunda áratugarins. Textar sveitarinnar tjá gremju og reiði gagnvart samfélagi sem hafnar hinseginleika. Í Want us Dead syngur söngvarinn Martin Crudo um ofsóknir sem enn þann dag í dag dynja á samkynhneigðum víða um heim.

Gleðiganga Hinsegin daga leggur af stað frá Hallgrímskirkju klukkan 14 í dag og hvetjum við alla til að fagna litrófi mannlífsins með gleði í hjarta.