Guterres segir mannkynið leika sér að eldinum

06.08.2022 - 07:38
epa09936598 UN Secretary-General Antonio Guterres pictured at a joint press conference with Moldovan Prime Minister Natalia Gavrilita (not pictured) during his two-day official visit in the government building in Chisinau, Moldova, on 09 May 2022.  EPA-EFE/DUMITRU DORU
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Mannkynið leikur sér að eldinum með því að eiga kjarnorkuvopn. Þetta sagði Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, í Hírósíma í Japan í nótt.

Sjötíu og sjö ár eru liðin frá því bandaríski herinn varpaði kjarnorkusprengju á Hírósíma. Var það í fyrsta skipti sem kjarnorkusprengja var nýtt í stríði. Vel á annað hundrað þúsund fórust í sprengingunni.

Guterres sótti árlega minningarathöfn í borginni í dag og sagði tugi þúsunda hafa farist á einu andartaki. Konur, karlar og börn hafi farist í vítislogum. Þau sem lifðu af hafi þurft að takast á við afleiðingar geislavirkninnar; krabbamein og önnur vandamál.

Þá spurði Guterres hvað mannkynið hafi lært af árásinni. Í dag ríki ófremdarástand í Mið-Austurlöndum, Á Kóreuskaga og í Úkraínu. Tilvist kjarnavopna sé hættuleg fyrir jarðarbúa. Þrettán þúsund slíkar sprengjur eru nú í vopnabúrum heimsins.

Vladímír Pútín Rússlandsforseti hefur frá upphafi innrásar Rússa í Úkraínu gefið í skyn að hann gæti beitt kjarnavopnum í stríðinu, sem rússnesk stjórnvöld kalla reyndar sértæka hernaðaraðgerð.

Þórgnýr Einar Albertsson