
Guterres segir mannkynið leika sér að eldinum
Sjötíu og sjö ár eru liðin frá því bandaríski herinn varpaði kjarnorkusprengju á Hírósíma. Var það í fyrsta skipti sem kjarnorkusprengja var nýtt í stríði. Vel á annað hundrað þúsund fórust í sprengingunni.
Guterres sótti árlega minningarathöfn í borginni í dag og sagði tugi þúsunda hafa farist á einu andartaki. Konur, karlar og börn hafi farist í vítislogum. Þau sem lifðu af hafi þurft að takast á við afleiðingar geislavirkninnar; krabbamein og önnur vandamál.
Þá spurði Guterres hvað mannkynið hafi lært af árásinni. Í dag ríki ófremdarástand í Mið-Austurlöndum, Á Kóreuskaga og í Úkraínu. Tilvist kjarnavopna sé hættuleg fyrir jarðarbúa. Þrettán þúsund slíkar sprengjur eru nú í vopnabúrum heimsins.
Vladímír Pútín Rússlandsforseti hefur frá upphafi innrásar Rússa í Úkraínu gefið í skyn að hann gæti beitt kjarnavopnum í stríðinu, sem rússnesk stjórnvöld kalla reyndar sértæka hernaðaraðgerð.