Gosstöðvarnar lokaðar á morgun - ekkert ferðaveður

06.08.2022 - 18:00
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands - RÚV
Veðurstofa Íslands hefur gefið út gula veðurviðvörun á Suðurlandi og Faxaflóa. Varað er við lélegu skyggni, roki og mikilli rigningu, einkum á Reykjanesskaga og við suðvesturströnd landsins. Gert er ráð fyrir sambærilegum veðurskilyrðum á Faxaflóasvæðinu.

Viðvörunin er í gildi á morgun, sunnudaginn 7. ágúst frá klukkan 9 til 16. 

Gosstöðvarnar verða lokaðar frá klukkan fimm í fyrramálið og þar til síðdegis á morgun. Þá verður staðan metin að nýju.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.

Gert er ráð fyrir suðaustanátt 13 til 18 metrum á sekúndu. Hvassast við ströndina og á Reykjanesskaga, sem og við Faxaflóa. Talsverð eða mikil rigning og lélegt skyggni. Varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind og einnig fyrir gangandi og hjólandi ferðalanga.

Skilgreining Veðurstofunnar á gulri veðurviðvörun:

Veðrið getur haft nokkur eða staðbundin áhrif og valdið töfum, slysum eða tjóni ef aðgát er ekki höfð. Slík veður eru ekki óalgeng en krefjast árvekni við skipulagningu atburða og í ferðum á milli landshluta eða á hálendinu. 

Óveruleg áhrif á samgöngur á landi, innviði og þjónustu. Gul viðvörun 3-5 daga fram í tímann gefur til kynna  að litlar eða miðlungs líkur séu á  mjög áhrifamiklu veðri 3-5 daga fram í tímann. Gangi spár eftir eru miklar líkur á að viðvörunargildi hækki þegar nær dregur.

sigurdurk's picture
Sigurður Kaiser
Fréttastofa RÚV