Þriggja ára fangelsi fyrir brot gegn sextán stúlkum

05.08.2022 - 19:40
Mynd: RÚV / RÚV
Móðir unglingsstúlku sem karl á sjötugsaldri braut á, fagnar þriggja ára fangelsisdómi yfir honum. Maðurinn var dæmdur fyrir brot gegn sextán stúlkum á aldrinum ellefu til fimmtán ára. Móðirin segir að vegna úrræðaleysis hafi þolendur orðið enn fleiri en ella.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi á dögunum Hörð Sigurjónsson, sem er fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður, í þriggja ára fangelsi fyrir brot gegn sextán stúlkum niður í ellefu ára aldur. Hann setti sig í samband við þær á samfélagsmiðlinum Snapchat, þar sem hann þóttist vera unglingur, sendi þeim klámefni og klámfengin skilaboð og reyndi að fá að hitta þær. Auk þess var hann dæmdur fyrir vörslu barnakláms og umferðarlagabrot. Tinna Bessad'ottir móðir einnar stúlkunnar fagnar dómnum.

„Við erum náttúrlega gríðarlega ánægð yfir að hann skuli hafa fengið svona þungan dóm og vonandi er þetta það sem koma skal í kynferðisafbrotamálum.“

Hörður á langan sakaferil  að baki. Tinna segir mikilvægast að búið sé að taka manninn úr umferð, hann hafi gengið allt of lengi laus.

„Ég held að ef það hefðu verið einhver úrræði fyrir þennan mann fyrir tíu árum, ef það hefði verið einhver staður sem að hefði getað tekið við honum, þá væru ekki svona mörg fórnarlömb.“

Hver voru samskipti hans og dóttur þinnar?

„Þau voru mjög lítil. Það var klukkan átta einn morguninn að hún fær senda vinabeiðni í gegnum Snapchat frá aðila sem að hún hélt að væri einhver jafnaldri, hann var búinn að vera efst á lista yfir vinauppástungur í mjög langan tíma, þau áttu mjög marga sameiginlega vini. Um leið og hún samþykkir fær hún strax mjög ógeðsleg skilaboð. Hún svarar honum og tekur screenshot og sýnir mér og eyðir honum út, þetta voru nokkrar mínútur.“

Hvernig varð henni við?

„Henni var mjög brugðið, en hún brást ofsalega vel við og gerði í raun allt rétt sem hún hefði getað gert og var sem betur fer vel stemmd þennan morguninn, það er ekkert sjálfsagt að börn séu vel stemmd og þori að svara eins og hún gerði eða hugsi það rökrétt að taka screenshot og láta vita strax því að það er bara frábært að barn skuli hafa gert það.“

Tinna segir dóttur sína, sem var þá þrettán ára, hafa orðið skelkaða þegar hún áttaði sig á því að maðurinn hefði áður fyrr verið rannsóknarlögreglumaður. Hún var hins vegar ánægð með viðbrögð sín og sagði skólafélögum sínum frá þeim.

„Þá kom í ljós að það voru fullt af öðrum börnum, mörg börn bæði í skólanum og í kjölfarið eru margir foreldrar sem hafa samband við mig og segja mér að þeirra börn hafi líka lent í þessu alveg niður í átta ára gömul. Um leið og það er byrjað að tala um þetta þá hrúgast inn sögurnar.“

Í spilaranum hér að ofan má horfa á umfjöllun um málið í kvöldfréttum.

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV