Sprungurnar virðast ekki hafa hreyfst mikið

05.08.2022 - 17:27
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon/Guðmu - RÚV
Ekki virðist hafa orðið hreyfing á sprungum norðan við gosstöðvarnar í Meradölum, þar sem talið er að kvika geti brotið sér leið upp á yfirborðið. Fram kom á fundi vísindaráðs í gær að umræddar sprungur hafi gliðnað að undanförnu. 

Ekki var langt liðið á eldgosið í Geldingadölum í fyrra þegar kvika braut sér leið upp á yfirborðið á fleiri stöðum en í upphafi. Því er talið líklegt að það geti gerst í gosinu í Meradölum nú.

Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúrvárvöktunar hjá Veðurstofu Íslands, flaug yfir svæðið síðdegis í dag ásamt fleiri sérfræðingum Veðurstofunnar en hún segir að sprungurnar virðast ekki hafa hreyfst mikið.

„Við gerðum mælingu á sprungu sem er hérna fyrir norðan. Svona við fyrstu sýn virðist hún ekki hafa hreyfst neitt. Það sem við erum að fylgjast með núna er hvort að það opnist nýjar gossprungur. Í fyrra þá sáum við í byrjun apríl, nokkrum vikum eftir að gosið hófst, að það fóru að opnast nýjar sprungur og þetta er eitt af því sem við viljum vera vakandi fyrir núna.”