
Minnst níu látin eftir loftárás Ísrael á Gaza
Heilbrigðisráðuneyti Palestínumanna á Gaza-svæðinu greinir frá því að fimm ára stúlka hafi verið drepin í árásunum, auk átta almennra borgara. Að minnsta kosti 55 særðust í árásinni samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins.
Meðal látinna er einnig Taysir al-Jabari, háttsettur foringi í samtökunum Heilags stríðs, sem var yfirmaður hernaðararms þeirra á norðursvæði Gaza-strandarinnar.
Í yfirlýsingu Ísraelshers segir að árásirnar í dag hafi verið hluti af aðgerðum gegn vígasamtökunum. Herinn greinir frá því að fimmtán vígamenn samtakanna hafi verið felldir í árásinni. Hún hafi verið hluti afmarkaðra aðgerða til þess að lama starfsemi vígasamtakanna.
Vaxandi spenna fyrir botni Miðjarðarhafs
Loftárásirnar koma í kjölfar vaxandi spennu fyrir botni Miðjarðarhafs undanfarna daga eftir að Ísraelsher handtók yfirmann í samtökunum í borginni Jenin á Vesturbakkanum á mánudag.
Herinn lokaði fjölförnum vegum í kjölfarið og sendi liðsstyrk og skriðdreka til landamæranna, af ótta við hefndaraðgerðir.
Töluvert tjón varð á byggingum á Gaza-svæðinu. Sjö hæða háhýsi í miðborg Gaza-borgar varð fyrir eldflaugum, en byggingin hýsti meðal annars ritstjórnarskrifstofur AP-fréttastofunnar og katörsku sjónvarpsfréttastöðvarinnar Al Jazeera.
Almennir borgarar bjuggu einnig í húsinu. Eldur braust út í árásunum og áttu björgunarsveitir fullt í fangi með að rýma heimili fólksins. Fjöldi almennra borgara átti fótum sínum fjör að launa.
Segja árásirnar stríðsyfirlýsingu
AFP-fréttaveitan hefur eftir talsmönnum samtakanna Heilags stríðs að árásirnar jafngiltu stríðsyfirlýsingu. Með þessum árásum í dag hefðu Ísraelsmenn sagt Palestínumönnum stríð á hendur.
Samtökin ákölluðu stuðningsfólk og aðrar herskáar andspyrnuhreyfingar um að bregðast við með einörðum hætti og takast á við ógnina í sameiningu.
Ísraelskir fjölmiðlar hafa eftir Richard Hecht, talsmanni hersins, að búast megi við eldflaugaárásum frá Gaza-svæðinu í kvöld og nótt.
Benny Gantz, varnarmálaráðherra Ísrael, segir að stjórnvöld í Ísrael hafi að undanförnu undirbúið árásirnar, sem hefðu það markmið að útrýma ógninni sem stafar af Gaza-svæðinu.
Bandaríkjastjórn hvatti andstæðar fylkingar í dag til stillingar, en minnti jafnframt á rétt Ísraelsmanna til að verja hendur sínar.