Líkur á sérstaklega mikilli gasmengun í Vogum í dag

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Síðdegis í dag eru líkur á að gasmengun nái miklum styrk yfir byggð á Reykjanesskaga, þá sérstaklega í Vogum en einnig í Garði. Í hægviðrinu í nótt má gera ráð fyrir að gasmengun hafi safnast saman á gosstöðvunum í Meradölum sem síðan færist norður með sunnanátt. 

„Í dag þá snýst vindur í suðlæga átt og hann hefur smám saman verið að snúast í morgun og það má gera ráð fyrir að gas leiti þá til norðurs. Spáin gerir ekki ráð fyrir að það fari yfir byggð fyrr en svona síðdegis í dag, þá má gera ráð fyrir einhverri gasmengun í Vogum og mögulega í Garði. En á gosstöðvunum sjálfum má gera ráð fyrir að það hafi byggst svolítið upp í hægviðrinu í nótt og að það gas verði eftir og færist þá til norðurs í sunnanáttinni,” segir Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur.

Gott að fylgjast með tölum Umhverfisstofnunar 

Hún óttast þó ekki að gasmengun nái til höfuðborgarinnar í dag. Það verði þá frekar á morgun þegar vindurinn snýst í vestanátt.

„Spár gera ekki ráð fyrir því nema svona að mjög litlu leyti. En á morgun snýst í vestlægari áttir og þá er svona líklegra að það nái eitthvað til höfuðborgarinnar,” segir Elín Björk og bætir við:

„Spáin gerir ráð fyrir að það verði frekar hár styrkur sérstaklega í Vogum en hins vegar erfitt að segja til um það vegna þess að við erum ekki alveg með góðar mælingar á því hversu mikill styrkur kemur upp enn sem komið er. Þannig það er langbest að fylgjast bara með mælum Umhverfisstofnunar sem staðsettir eru í byggðalögum á þessu svæði.” 

Hér er hægt að nálgast tölur um gasmengun frá Umhverfisstofnun.

Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands - RÚV