Lengja í lánum og skuldbreyta 5 milljörðum í hlutafé

Mynd með færslu
 Mynd: Vaðlaheiðargöng
Ríkissjóður hyggst skuldbreyta fimm milljörðum af 20 milljarða króna láni til Vaðlaheiðarganga í hlutafé og framlengja lokagjalddaga lánsins til ársins 2057. Fjármálaráðherra segir félagið ekki hafa haft bolmagn til að standa við skuldbindingar.

Skulda tæpa 20 milljarða

Greið leið ehf. sem er að mestu í eigu sveitarfélaga á Norðurlandi eystra á stærstan hluta Vaðlaheiðarganga eða sextíu og sex prósenta hlut á móti þrjátíu og þriggja prósenta hlut ríkissjóðs. Viðskiptamiðillinn Innherji greindi frá því í morgun að ríkið hefði tekið ákvörðun um að breyta hluta lánsins í hlutafé. Er það gert til að létta á skuldum Vaðlaheiðarganga, sem voru alls 19,9 milljarðar í lok árs 2021.

„Félagið gat ekki staðið við skuldbindingar“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að nauðsynlegt hafi verið að endurskoða fjárhag félagsins. „Það er einfaldlega vegna þess að félagið gat ekki staðið við skuldbindingar sínar, skuldaði ríkinu háar fjárhæðir sem það gat ekki greitt. Þá var skuldum breytt í hlutafé og lengt í lánum þannig að nú teljum við að félagið sé komið með nokkuð stöðuga fjármögnun til lengri tíma,“ segir Bjarni.

En var þetta ekki fyrirséð alveg frá upphafi? 

„Það voru deildar meiningar um það í upphafi og tekist á um það á Alþingi eins og hægt er að rifja upp. Verkefnið okkar í ráðuneytinu er að horfast í augu við stöðuna eins og hún er og þetta er það sem við töldum skynsamlegast að gera í ljósi aðstæðna.“ 

Má búast við að þetta verði gert aftur?

„Nei, það er einmitt það sem við erum að reyna að fyrirbyggja.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Stefán Ingvarsson - RÚV