Lækkandi olíuverð gæti temprað verðbólgu

05.08.2022 - 13:55
FILE - A pump jack extracts crude oil at an oil field near wind turbines in Emlichheim, Germany, March 18, 2022. Most major countries are finding it easier to promise to fight climate change than actually do it. Experts tracking action to reduce carbon emissions say of the major economies only the European Union is close to doing what's necessary to limit global warming to a few more tenths of a degree. (AP Photo/Martin Meissner, File)
Olíuvinnsla og vindorkuver í Þýskalandi. Þjóðverjar hyggjast bregðast við yfirvofandi gasskorti með því að gangsetja minnst tíu kolaorkuver sem búið var að afleggja, þvert á loftslagsmarkmið stjórnvalda þar í landi.  Mynd: AP
Heimsmarkaðsverð á hráolíu hefur lækkað skarpt síðustu vikur eftir mikla hækkun á fyrri hluta ársins. Frá mánaðamótum hefur verð á Brent-hráolíutunnunni lækkað um nærri 12 prósent og frá júníbyrjun um ríflega 20 prósent. Verðið er nú svipað og það var rétt áður en Rússar réðust inn í Úkraínu, en innrásin leiddi til hraðra verðhækkana.

Í nýrri grein greiningardeildar Íslandsbanka er fjallað um að nýlegar verðlækkanir séu drifnar áfram af þremur þáttum, rýmri birgðastöðu í Bandaríkjunum en búist var við, dekkri hagvaxtarhorfum á heimsvísu sem draga úr eftirspurn eftir hráolíu, og ákvörðun OPEC+ um að auka lítillega framboð.

Verð á bensíni og olíum hér á landi hefur hækkað um þrjátíu prósent það sem af er ári en greiningardeild Íslandsbanka fjallar um það í nýrri grein að ef heimsmarkaðsverðið helst stöðugt eða lækkar enn frekar ætti verð til íslenskra neytenda að lækka á endanum. Það kynni að tempra verðbólgu, enda hafi eldsneytisverð í smásölu skýrt 1,2 prósentur af 9,9 prósenta verðbólgu í júlí. Talsverður hluti eldsneytisverðs á íslenskum dælum endurspegli þó opinber krónugjöld sem ekki breytist með hækkandi innkaupsverði.

„Spár sérfræðinga á hrávörumarkaði hljóða upp á nokkra lækkun hráolíuverðs á heimsmarkaði á komandi misserum frá því verði sem ríkti á fyrri helmingi þessa árs. Óvissa er vitaskuld mikil í þessum spám eftir örar sveiflur síðustu mánuði en þær styðja þó við væntingar okkar um að verð á eldsneyti muni á endanum verða lægra hér á landi en það hefur verið síðustu mánuðina,“ segir í grein Jóns Bjarka Bentssonar, aðalhagfræðings Íslandsbanka.