Kvár upplifa óöryggi að sækja almenna þjónustu

Mynd: Aðsend / Birta Ósk

Kvár upplifa óöryggi að sækja almenna þjónustu

05.08.2022 - 14:00

Höfundar

Samfélagið gerir ekki ráð fyrir kvárum og ein mesta hindrunin í lífi þeirra er ósýnileikinn. Brýn þörf er á aukinni fræðslu innan heilbrigðis- og skólakerfisins en kvár upplifa oft óöryggi að sækja almenna læknisþjónustu vegna þess að læknar vita ekki hvernig eigi að tala við þau. Birta Ósk vinnur að rannsókn um upplifun kvára á Íslandi með tilliti til kynjajafnréttis.

Birta Ósk er meistaranemi í kynjafræði og vinnur að rannsókn fyrir Kvenréttindafélagið um stöðu kvára í samfélaginu sem mun koma út í september. Markmiðið er að svara spurningum á borð við hvaða hindranir eru til staðar fyrir kvár í samfélaginu og hvað geta stjórnvöld gert betur til að mæta þörfum þeirra.  

Fjölbreytt upplifun  

Orðið kvár er nafnorð yfir fullorðinn kynsegin einstakling, einstakling sem upplifir sig fyrir utan hefðbundna tvískiptingu í karla og konur. Orðið samsvarar því nafnorðunum kona og karl. Að sama skapi er nafnorðið stálp notað yfir kynsegin börn og samsvarar nafnorðunum stelpa og strákur. 

Hins vegar er orðið hán persónufornafn og er notað á sama hátt og persónufornöfnin hann eða hún. 

„Það eru ekki allir kynsegin einstaklingar sem nota orðið kvár en það er samt alveg almenn samstaða í hinsegin samfélaginu um að þetta sé gott orð,“ segir Birta. Orðið er notað sem regnhlífarheiti yfir öll þau sem upplifa sig kynsegin sem að sögn Birtu er mjög fjölbreyttur hópur.  

Samfélagið gerir ekki ráð fyrir kvárum 

„Þegar ég tala um hindranir þá get ég bæði talað um almennar hindranir í samfélaginu og kerfislægar,“ segir Birta. „En þessar almennu sem einhvern veginn lita allt líf kvára er þessi ósýnileiki. Samfélagið tekur ekki kvár til greina.“  

Enn sé að eiga sér stað mikil vitundarvakning og fólk enn að læra að tala kynhlutlaust mál. Málefni kynsegin fólks hafa lítið verið rannsökuð hér á landi, sér í lagi í sambandi við kynjamis- og jafnrétti. „Þau hafa svolítið verið útilokuð úr skýrslum um kynjafafnrétti,“ segir Birta sem beinir rannsóknum sínum að sjónarhorni kvára.  

„Hindranirnar eru einmitt að fólk gerir einhvern veginn aldrei ráð fyrir manni, rýmið gerir ekki ráð fyrir manni,“ segir Birta. Salerni eru iðulega kynjuð eftir körlum og konum, skráningar bjóða gjarnan ekki upp á kynhlutlausan valmöguleika og þegar fólk hittist í fyrsta sinn er sjaldan gert ráð fyrir því að það sé möguleiki að viðkomandi sé kynsegin. 

Þurfa að sannfæra lækna um að að þau séu í alvöru kynsegin 

Árið 2019 voru samþykkt lög um kynrænt sjálfræði og var þá réttarstaða trans og kynsegin fólks bætt talsvert. „Þannig það er margt búið að batna en enn margt sem má bæta bæði í heilbrigðis- og skólakerfinu,“ segir Birta.  

Trans og kynsegin fólk getur leitað til transteymisins ef þeim finnst þau þurfa að breyta líkama sínum á einn eða annan hátt, fara í kynstaðfestandi aðgerðir eða fá hormónagjöf. Það sé þó enn mörgu ábótavant innan teymisins og tekur hán sérstaklega sem dæmi greiningarferlið sem fólk þarf að þreyta.  

„Fólk þarf að fara í fjögur greiningarviðtöl hjá geðlækni og sálfræðingi áður en eitthvað getur hafist. Þannig að þau upplifa sig svolítið þurfa að sannfæra lækna um að þetta sé eitthvað sem þau vilja og að þau séu í alvörunni kynsegin.“ Mörg upplifi þessi viðtöl sem sérstaka hindrun vegna þess að það getur verið mánaða löng bið eftir fyrsta viðtali og svo eftir þeim næstu. „Þannig þetta getur verið rosalega löng bið og þetta er áður en maður byrjar kannski á hormónum.“ 

Kynsegin einstaklingur hafi mögulega verið í þessu ferli í eitt og hálft ár, mögulega búið að vera á hormónum í hálft ár, þegar hán finnur það hjá sér að hán þurfi að fara í aðgerð. Þá þurfi að hefja ferlið upp á nýtt. „Fara aftur í gegnum fjögur greiningarviðtöl, aftur að fara í gegnum þessa bið áður en hán getur bókað sig í aðgerð sem er kannski eftir langan tíma líka.“ 

„Þetta vegur kannski hæst í heilbrigðiskerfinu,“ segir Birta. 

Upplifa óöryggi að sækja almenna læknisþjónustu 

Birta segir einnig frá því að viðmælendur háns hafi lýst erfiðum samskiptum við almenna lækna, t.d. tannlækna og heimilislækna. Þeir spyrji mikið um kynið og viti ekki hvernig þeir eigi að tala við þau þegar kyn kemur þjónustunni ekki endilega við. „Þau upplifa óöryggi að sækja almenna læknisþjónustu líka.“ 

Þörf er því á kraftmikilli almennri vitundarvakningu, sér í lagi innan heilbrigðis- og skólakerfisins, um hvað það er að vera kynsegin og hvernig eigi að nota fornöfnin rétt. „Mér finnst alvarlegt að heilbrigðisstarfsfólk viti kannski ekki almennilega og meira að segja innan transteymisins, að þau skilji ekki alveg upplifun kvára og trans fólks.“ 

„Það er bara þægilegra að fela mig“ 

Rannsóknin er eigindleg og Birta hefur tekið viðtöl við kvár á öllum aldri. „Það kemur mér á óvart hvað þetta hefur mikil áhrif á allt lífið,“ segir hán. „Viðmælendur mínir hafa lýst því fyrir mér að þau þurfa að vera á stöðugu varðbergi fyrir áhættum í umhverfinu, þau geta aldrei slakað alveg á því þau vita ekki hvernig fólk mun taka þeim.“ Enn sé fólk sem rífst um tilvistarrétt kvára og þau eru oft sett í þau stöðu að þurfa að fræða annað fólk sjálf þegar sú ábyrgð ætti að liggja annars staðar.  

Birta segir að þessi opinbera neikvæða umræða hefur áhrif á að mörg eiga erfitt með að koma út sem kvár. „Þegar fólk er með hatursorðræðu gegn kvárum þaggar það niður í allri góðu vitundarvakningunni og gerir fólk enn óöruggara að vera það sjálft.“  

Einn viðmælanda háns hafði orð á því að það væri þægilegra að fela sig og vera ekki það sjálft. „En á sama tíma er það ótrúlega óþægilegt að geta ekki verið það sjálft í kringum annað fólk.“ 

Sýnileiki og fræðsla lykilatriði 

Skýrsla Birtu verður gefin út í september og þá getur Birta svarað betur hvers kyns aðgerðir stjórnvöld geta hrint í framkvæmd. Hán tekur sem dæmi að stjórnvöld gætu framfylgt lögunum um kynrænt sjálfræði betur og sett á laggirnar fleiri lög um kvár og trans fólk. Og að sjálfsögðu sé sýnileiki og meiri fræðsla lykilatriði.  

Rætt var við Birtu Ósk í Sumarmálum á Rás 1. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.  

 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Byrjaði að efast um kyn sitt 6 ára

Bókmenntir

Mörgum líður miklu betur eftir að skipta um fornafn

Menningarefni

„Ég var miklu týndara en ég er núna“