Kína slítur samstarfi við Bandaríkin

05.08.2022 - 15:15
Mynd: EPA-EFE / EPA
Kínversk stjórnvöld hafa slitið samstarfi við Bandaríkjamenn á mörgum sviðum, svo sem í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Þetta er gert vegna heimsóknar Nancyar Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, til Taívans í vikunni.

Kínverjar brugðust harkalega við þegar tilkynnt var að Pelosi hygðist heimsækja eyríkið Taívan í byrjun þessa mánaðar. Xi Jinping, forseti Kína, sagði meðal annars af því tilefni á símafundi með Joe Biden Bandaríkjaforseta að sá sem léki sér að eldinum endaði á að brenna sig.

Stjórnvöld í Kína gerðu í gær alvöru úr hótunum um hernaðaríhlutun vegna heimsóknarinnar, þegar umfangsmiklar heræfingar kínverska hersins hófust umhverfis Taívan. Herinn hefur viðhaft ögrandi tilburði og meðal annars skotið flugskeytum inn á japanskt hafsvæði.

Viðræðum vegna loftslagsvár hætt

Í dag tilkynnti utanríkisráðuneytið í Peking að samstarfi við Bandaríkin hefði verið slitið á ýmsum sviðum. Þar ber hæst að viðræðum landanna - tveggja helstu mengunarvalda heims - um loftslagsbreytingar, verður hætt. 

Þá verður samráðsfundum yfirmanna í herjum beggja landa slitið. Sömu sögu er að segja um samstarf yfir landamæri gegn glæpum og  sameiginleg barátta gegn eiturlyfjum verður lögð á hilluna. 

Einnig verður sameiginlegt átak ríkjanna tveggja til að stöðva ferðir ólöglegra innflytjenda lagt af og viðræðum verður hætt um öryggi á höfunum.

Japanar fordæmdu í dag heræfingar Kínverja við Taívan, sem eru sagðar þær umfangsmestu í sögunni. Þeir segja að minnst fimm kínversk flugskeyti hafi hafnað í japanskri efnahagslögsögu. Æfingarnar eru sagðar ógn við öryggi og stöðugleika í Austur-Asíu. 

Joseph Wu, utanríkisráðherra Taívans, fordæmdi fyrr í dag heræfingar Kínverja í viðtali við breska ríkisútvarpið, BBC. Hann sagði að harkaleg viðbrögð við heimsókn Pelosi yrðu ekki til þess að hætt yrði að bjóða háttsettum stjórnmálamönnum lýðræðisríkja til Taívans.

Í spilaranum hér að ofan má horfa á umfjöllun um málið í kvöldfréttum.