Hafa aldrei haldið fleiri giftingar en í ár

05.08.2022 - 12:29
Mynd með færslu
 Mynd: Hannes Sasi Pálsson - Aðsent
Algjör sprenging hefur orðið hjá fyrirtækinu Pink Iceland, sem sérhæfir sig í því að skipuleggja brúðkaup fyrir hinsegin fólk. Yfir 160 pör ganga í hjónaband á þeirra vegum í ár og hafa þau aldrei verið fleiri. 

Pink Iceland er ferðaþjónustufyrirtæki sem var stofnað fyrir ellefu árum í þeim tilgangi að þjónusta hinsegin fólk með sérstökum ferðum. Hannes Sasi Pálsson, einn eigenda Pink Iceland, segir að breytingar í lagaumhverfi hafi þá haft áhrif á starfsemina. „Á sama tíma þá voru lög samþykkt, giftingarlögin sem sagt, þar sem var samþykkt að fólk af sama kyni mætti gifta sig, og þannig að við byrjuðum að bjóð upp á giftingar í tengslum við það og þá breytingu. Þannig að í dag erum við kannski meira í brúðkaupum.“

Fyrirtækið heldur utan um 160 brúðkaup í ár og Hannes segir það algjöra sprengingu miðað við fyrri ár. „Það er náttúrulega algjör sprenging í ár, bara uppsöfnuð þörf. Brúðkaupin eru allt frá því að vera bara tveir einstaklingar sem vilja gifta sig einhvers staðar útí náttúrunni og við hjálpum þeim með það og alveg upp í jafnvel 100-150 manna brúðkaup þar sem fólk er að koma alls staðar að úr heiminum.“

Fyrirtækið stofnað í kringum hinsegin ferðamennsku og fór svo að skipuleggja samkynja giftingar. Hannes segir hins vegar athyglisvert að meirihluti brúðkaupa á þeirra vegum í ár séu fyrir gagnkynja pör. „Það er ótrúlega athyglisvert að því leytinu til að við höfum aldrei breytt okkar nálgun og erum mjög hinsegin og mjög stolt af því. Þannig að okkur þyki bara vænt um það að í krafti þess að vera þau sem við erum þá leitar fólk til okkar. Við köllum þetta svona hálfgerðan fávitafilter, að fólk sem að myndi ekki vilja vinna með fólki eins og okkur, það leitar ekki til okkar.“

astahm's picture
Ásta Hlín Magnúsdóttir