„Allir í startholunum ef á reynir“

05.08.2022 - 17:42
Mynd með færslu
 Mynd: Barði Stefánsson - RÚV
Verktakar eru í startholunum og búið er að staðsetja tæki og tól til að bregðast við og verja innviði, skapi eldgosið í Meradölum hættu. Forsætisráðherra segir þó óskynsamlegt að svo stöddu að ráðast í gerð mikilla og kostnaðarsamra varnargarða. Málin voru rædd í morgun á fyrsta fundi ríkisstjórnarinnar eftir sumarhlé.

 

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir að eftir jarðskjálftana og gosið í fyrra hafi Reykjanesskagi verið til sérstakrar athugunar út frá öryggi fólks og innviða. Í vor var ákveðið að setja saman samhæfingarhóp ráðuneyta því ef spár vísindamanna ganga eftir getur verið fyrir höndum langt tímabil jarðhræringa suður með sjó. 

„Þannig að viðbrögðin við þessu gosi voru í raun og veru þau að við erum komin með ákveðna ferla sem að eru í gangi. Viðbragðsaðilar okkar eru ótrúlega færir í sínum störfum þannig að við sjáum að þeir vinna saman sem einn þegar að þetta gerist allt saman. Þegar við horfum til skemmri tíma þá er stóra málið að fylgjast með þessu gosi, vakta bæði mannaferðir og gasmengun, sem getur verið hættuleg og það er allt saman í vel skilgreindum ferlum.“

Huga þurfi að byggðarlögum, mikilvægum orkuinnviðum, vegakerfi og alþjóðaflugvellinum í Keflavík. Í haust verði lagt fram nýtt áhættumat verkfræðinga, jarðfræðinga og Veðurstofu varðandi uppbyggingu flugallar í Hvassahrauni.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra segir rétt að bíða eftir því áður en uppbygging þar er alveg slegin út af borðinu.

„En ég held að það sjái það nú allir að það hefur nú ekki batnað ástandið þarna með stöðu jarðhræringa og spám um að það geti haldið áfram. Við erum búin að kortleggja og taka til tæki sem hægt væri að nota til að verja mannvirki komi til þess.“

Katrín Jakbobsdóttir, segir að nú sem endranær séum við öll ofurseld þeirri staðreynd að það er mikil óvissa hverju sinni hvar möguleg gos geta orðið og hvernig þau flæða.

 „Sem þýðir það að ráðast til að mynda í umfangsmikla og mjög kostnaðarsama varnargarða fyrirfram kann að vera óskynsamlegt þegar að við vitum ekki hvar gosið kemur upp. En ég myndi segja að stjórnkerfið væri bara á tánum í þessu máli. Þetta er stórmál fyrir íbúa svæðisins fyrst og fremst. “

 

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV