Undirbúa fordæmalaust stórar heræfingar

04.08.2022 - 01:09
Taívanskar herþotur á flugi
 Mynd: EPA
Búist er við að umfangsmiklar heræfingar Kínverja hefjist við eyjuna Taívan í nótt. Æfingarnar eru sagðar verða fordæmalaust umfangsmiklar og raunveruleg skotfæri verða nýtt.

Heimsókn Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, til eyjunnar í gær vakti mikla úlfúð á meginlandinu.

Kínversk stjórnvöld gera tilkall til Taívans en þangað flúði stjórn Lýðveldisins Kína er hún hafði tapað borgarastyrjöld fyrir kommúnistum.

Taívan nýtur sjálfsstjórnar í dag og þótt fæst ríki heims viðurkenni sjálfstæði eyríkisins á það í óformlegu sambandi við fjölda landa.

Pelosi yfirgaf eyjuna í dag eftir að hafa heitið Tsai Ing-wen, forseta Taívans, áframhaldandi stuðningi. Heræfingarnar sem senn hefjast munu að sögn Taívansstjórnar setja eyjuna í algjöra herkví.