„Þetta kom bara eins og eftir pöntun“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bókanir hjá Icelandair og Play tóku kipp í gær þegar fór að gjósa. Forstjórar félaganna fagna gosinu og eru sammála um að það hafi góð áhrif á ferðaþjónustuna.

Bréfin græn

Þó að enn sé ekki kominn sólarhringur síðan glóandi hraun fór að renna í Meradölum á Reykjanesskaga er gosið þegar farið að hafa áhrif á ferðaþjónustu. Gengi hlutabréfa í Icelandair tók kipp strax og fór að gjósa og bréfin hækkuðu um rúmlega 7% á aðeins örfáum klukkutímum. Við lok markaða í gær höfðu bréfin hækkað um rúm 3,2 prósent í Kauphöllinni. Gengi hlutabréfa Play hækkuðu líka um tæp 2 prósent. Hækkanir héldu svo áfram hjá báðum félögum við opnun markaða í morgun.

„Fundum klárlega fyrir mikilli traffík“

Birgir Jónsson, forstjóri Play, segir að gosið hafi mikil áhrif. „Við fundum klárlega fyrir mikilli traffík, erlendis frá, inn á alla miðlana okkar. Bæði bókunarvélina okkar og samfélagsmiðlana. Þannig að þetta vakti strax mikinn áhuga og er held ég gríðarlega jákvætt fyrir ferðaþjónustuna,“ segir Birgir.

Sjáið þið fyrir ykkur að hamra járnið meðan það er heitt og hreinlega markaðssetja ferðir hingað til þess að skoða gosið?

„Algjörlega, okkar markaðsfólk var í startholunum og var mjög fljótt af stað í gær að koma þessum skilaboðum og allskonar tilboðum og öðru áleiðis. Þetta kom bara eins og eftir pöntun.“ 

Sama sagan hjá Icelandair

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair tekur í sama streng. „Já, við fundum fyrir auknum áhuga og leitum á okkur miðlum, sáum það strax. En allur áhugi skilar sér klárlega í auknum bókunum, við sáum það bara í fyrra þegar gaus þannig að svona, hvað eigum við að kalla það, viðburðir þeir hafa alltaf jákvæð áhrif á flæðið.“

Þurfa að brýna fyrir heiminum að það sé óhætt að koma

Hann segir mikilvægt að réttum skilaboðum sé komið til umheimsins um gosið. „Við munum að minnsta kosti láta heiminn vita af því að þó að eldgosið sé nálægt flugvellinum og Reykjavík og ýmsum stöðum að þá er hættulaust að koma hingað. Og þetta er eldgos, eins og staðan er núna, svipað og var í fyrra.“