Starfskona ræðismannskrifstofu Noregs send heim

04.08.2022 - 15:00
Vegskilti sem vísar til Kirkenes og Murmansk.
 Mynd: TV2 - TV2 Noregi
Rússnesk stjórnvöld kölluðu í morgun Rune Resaland sendiherra Noregs á teppið, vegna framferðis Elisabeth Ellingsen, sem starfaði sem diplómat á ræðismannskrifstofu Noregs í borginni Múrmansk. Umdeild hegðun hennar og fúkyrði í garð starfsfólks hótels í borginni, sem Kremlverjar telja Rússafóbísk og niðrandi, voru tilefni fundarins.

Múrmansk liggur nærri norsku landamærunum, um 200 kílómetrum austan við þorpið Kirkenes, á landsvæði sem liggur innan Norðurheimskautsbaugs.

Rússneska utanríkisþjónustan afturkallaði í morgun vegabréfsáritun Ellingsen og vísaði henni úr landi. Veru hennar væri ekki lengur óskað í landinu, eftir það sem gerðist væri ómögulegt að leyfa Ellingsen að vera áfram í Rússlandi, segir í yfirlýsingu frá ráðuneytinu.

Fordæma ummæli Ellingsen

Maria Zakharova talskona utanríkisráðuneytis Rússlands, fordæmdi fyrir helgi hegðun Ellingsen, sem meðal annars sagðist hata Rússa í reiðilestri yfir starfsfólki í móttöku hótelsins. Kvartar Ellingsen yfir hreinlæti á hótelinu og segir að þar sem hún sé frá Skandinavíu, sé hún vön því að hótelherbergi séu hrein. 

Zakharova sagði að stjórnvöld myndu bregðast við því hatri, þjóðrembu og útlendingahatri sem Ellingsen hefði sýnt af sér.  

Ráðuneytið sagði hegðunina smánarlega, en á upptökum úr öryggismyndavélum má sjá hana hella sér yfir starfsfólkið með skömmum og svívirðingum. Atvikið náðist á öryggismyndavél hótelsins og hefur verið í dreifingu á samfélagsmiðlum. 

Viðkvæm staða í samskiptum ríkjanna

Atvikið kemur á viðkvæmum tíma þegar togstreita á milli Rússa og Vesturlanda er mikil vegna innrásar Rússlands í Úkraínu, sem hefur orðið þess valdandi að viðskiptahindranir Vesturlanda þrengja verulega að. 

Norska utanríkisráðuneytið, sem reynt hefur að kæla og svara fyrir atburðarásina, sagði um helgina að yfirlýsingar Ellingsen væru ekki lýsandi fyrir viðhorf Norðmanna til Rússlands eða rússnesku þjóðarinnar. 

Guri Solberg, talskona ráðuneytisins sagðist harma atvikið, eftir að ljóst var í morgun að Rússland hefði afturkallað vegabréfsáritun Ellingsen. Ræðismannsskrifstofunni hefði verið lokað tímabundið á meðan væri verið að koma samskiptum ríkjanna í samt lag.

Hér fyrir neðan má horfa á atvikið í móttöku hótelsins í Múrmansk.

sigurdurk's picture
Sigurður Kaiser
Fréttastofa RÚV