Hósti og sviði í augum eru einkenni gasmengunar

04.08.2022 - 10:33
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fólk gæti fundið fyrir mjög bráðum einkennum gasmengunar við gosstöðvarnar, en styrkur mengunar í byggð ætti ekki að vera nógu mikill til að þau geri vart við sig. Þetta segir sérfræðingur í loftgæðum hjá Umhverfisstofnun.

„Fólk finnur óþægindi og sviða í hálsi, fær kannski hóstakast og jafnvel óþægindi í augu. En þegar það er orðið þannig þá er gildið orðið ansi hátt. Ég býst ekki við að fá svo há gildi í byggð en við getum fengið svo há gildi við gosstöðvarnar að fólk finni fyrir mjög bráðum einkennum,“ segir Þorsteinn Jóhannsson,  sérfræðingur í loftgæðum hjá Umhverfisstofnun. 

Hann bendir á að þeir sem eru viðkvæmir fyrir, til dæmis með astma, geti fundið fyrir slæmum einkennum, sem oftast gangi þó hratt til baka. Þá séu börn alltaf viðkvæmari fyrir mengun en fullorðnir. 

„Fólk getur fundið fyrir öndunarerfiðleikum. Þetta er ekki beint eitrað gas en þetta er ertandi gas, og óhollt sem slíkt,“ segir hann. Hann bætir við að þetta eigi við um brennisteinsdíoxíð. „Við gosstöðvarnar eru fleiri varasamar lofttegundir, sem eru sérstaklega varasamar ef það er nánast logn. Það er eins og koltvíoxíð, það er ekki talið eitrað en það getur verið í það miklum styrk við gosið að það fer að þynna út súrefni andrúmsloftsins. Það getur verið lífshættulegt,“ segir hann. 

Ekki sé vitað til þess að neinn hafi orðið fyrir koltvíoxíð-mengun við gosstöðvarnar, en sannarlega sé hætta á henni. „En það eru dæmi í eldgosum erlendis að fólk hafi lent í því og bara kafnað,“ segir Þorsteinn.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV