Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Bjarni vill vera formaður áfram

Mynd með færslu
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins ætlar að sækjast eftir endurkjöri sem formaður flokksins á landsfundi í nóvember. Hann segir að nýta þurfi tímann vel þegar fólk sé í stjórnmálum og það ætli hann að gera áfram.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins verður haldinn í nóvember og er það fyrsti landsfundur flokksins í fjögur ár en síðasti landsfundur var í mars 2018. Fundinum var ítrekað frestað vegna faraldursins en frá síðasta fundi hafa farið fram alþingiskosningar þar sem Sjálfstæðisflokkurinn endurnýjaði samstarfið við Framsókn og Vinstri græn. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins er samkvæmt hefðinni haldinn í Laugardalshöll, þar er stefna hans mótuð og þar er flokksforystan kosin. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður flokksins var fyrst kosinn formaður í mars 2009, í kjölfar efnahagshrunsins, og tók við af Geir Haarde. Hann hefur því verið formaður í tæp fjórtán ár þegar landsfundur fer fram í nóvember, en sækist hann eftir því að gegna formennsku áfram?

„Ég lít þannig á að við séum bara að hefja kjörtímabilið og mér finnst ekkert annað eðlilegt en að ég haldi mínu striki og þess vegna í nóvember mun ég gefa kost á mér til að starfa áfram í þessari ríkisstjórn og leiða Sjálfstæðisflokkinn. Manni líður auðvitað alltaf eins og það séu mjög mikilvægir tímar uppi og maður þarf að nýta tímann vel þegar maður er í stjórnmálum og ég ætla að reyna að gera það áfram.“