Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Um átta þúsund símar í grennd við gosstöðvarnar

03.08.2022 - 17:41
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
7.500 símar eru á svæðinu í kringum gosstöðvarnar. Fjögur þúsund þeirra eru erlend símanúmer. Þetta sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra á upplýsingafundi í dag.

Almannavarnir sendu textaskilaboð alla síma sem voru í nágrenni við gosstöðvarnar. Skilaboðin vöruðu fólk við að leggja leið sína að gosstöðvunum. Enn sé verið að meta stöðuna og nokkur gasmengun sé á svæðinu. 

Hann ítrekaði skilaboðin á upplýsingafundi almannavarna, sem hófst klukkan 17:30 í dag. 

„Við viljum biðla til fólks að fara varlega. Þetta er löng ganga; þetta er miklu lengri ganga heldur en var að gosstöðvunum í fyrra, og um erfiða leið að fara. Þannig þetta er ekki nema fyrir mjög vel búið fólk sem er vant löngum gönguferðum að fara í þetta,“ sagði Víðir.

Gönguleiðin að gosstöðvunum eru um 17 kílómetrar, að sögn Víðis.

Hann hvetur fólk til að bíða með að fara að gosstöðvunum. Verið sé að athuga hvað sé hægt að gera til að gera gosstöðvarnar aðgengilegri.

„Þetta er þannig gos að ég held að maður sé ekki að missa að neinu ef maður fer þangað ekki í dag,“ sagði Víðir Reynisson.

peturm's picture
Pétur Magnússon
Fréttastofa RÚV