Mesta vinnan var að yfirvinna eigin fordóma

Mynd: aðsend / RÚV

Mesta vinnan var að yfirvinna eigin fordóma

03.08.2022 - 15:44

Höfundar

„Það er ótrúlega mikilvægt að koma út úr skápnum því þú ert ekki heil fyrr en þú hættir að fela stóran og mikilvægan hluta af þér,“ segir Ragnhildur Sverrisdóttir. Hún kom út úr skápnum sem lesbía á árunum í kringum 1980.

Þegar Ragnhildur Sverrisdóttir kom út úr skápnum við upphaf níunda áratugarins kunni hún ekki orð yfir sjálfa sig. Orðin sem hún heyrði voru eitthvað sem hún vildi ekki skreyta sig með. Hún eignaðist fyrst kærustu í menntaskóla og saman leituðu þær að hinsegin samfélaginu á Íslandi. Hún sagði frá því þegar hún kom fyrst út úr skápnum í Skápasögum sem eru á dagskrá á hverjum degi á hinsegin dögum í Sumarmálum á Rás 1. 

Feluleikur um bréfaskrif 

Samtökin '78, hagsmunasamtök hinsegin fólks á Íslandi, voru stofnuð árið 1978 og höfðu kærusturnar samband við þau bréfleiðis. „Við sendum bréf í eitthvað pósthólf og þetta var töluverður feluleikur því við vorum skíthræddar við svarbréfið. Það mátti ekki koma heim til foreldra okkar,“ segir Ragnhildur. Þær sömdu við ömmu annarrar þeirra um að fá bréfið sent þangað því amman lofaði því að opna ekki póstinn. Þegar fréttabréf Samtakanna barst þeim einblíndi það fyrst og fremst á réttindabaráttu og pólitík víða um heim sem menntaskólastelpurnar tengdu lítið við. Það var nokkru síðar sem þær hittu annað ungt hinsegin fólk á fundi samtakanna og komust að því að þær voru ekki einar á landinu.  

Eigin fordómar erfiðastir 

„Við búum auðvitað ekki í sama samfélagi og árið 1980. Þá voru fáránlegustu fordómar en erfiðastir voru þeir sem ég hafði innprentað í sjálfa mig á 20 ára ævi í þessu ótrúlega heterónormatíva samfélagi. Mesta vinnan hjá mér var að yfirvinna eigin fordóma,“ segir Ragnhildur sem kom út úr skápnum í áföngum.

Hún átti kærustu og vini í hinsegin samfélaginu en byrjaði á því að þreifa fyrir sér í því að segja fjölskyldu og vinum utan hinsegin samfélagsins frá því að hún væri samkynhneigð með því að skrifa systur sinni bréf, en systir hennar bjó erlendis. „Ég treysti henni fyrir þessu í fyrsta lagi vegna þess að ég treysti henni 100 prósent en mér fannst líka betra að geta fest þetta á blað og sent til hennar heldur en ef að ég hefði sest niður með einhverjum heima.“ Smám saman bættist í hóp þeirra sem Ragnhildur treysti fyrir leyndarmáli sínu og hún var tvítug þegar hún sagði foreldrum sínum sem tóku öllu ljúfmannlega. „Þau voru alltaf 100 prósent á bak við mig og mína.“ 

Áhyggjur af bakslagi 

Ragnhildur lýsir áhyggjum sínum af bakslagi sem hún segist finna að sé komið: „Aftur er farið að berja okkur á skemmtistöðum og öskra á eftir okkur úti á götum, það er mjög ógnvænlegt því maður hélt að sá tími væri alveg liðinn.“ Hún segist að ef til vill hafi hinsegin samfélagið verið værukært og haldið að slagurinn væri með öllu unninn, það megi ekki gleyma að hamra á hlutunum til að viðhalda þeim. Hún segist enn þann dag í dag ekki upplifa fullkomið frelsi nema í hópi annars hinsegin fólks því þar sé skilningurinn algjör.

„Ég hef aldrei mætt neinu nema velvilja og ást og væntumþykju, en þessi 100 prósent skilningur er ekkert endilega annars staðar en í hinsegin samfélaginu,“ segir hún. 

Hinsegin samfélagið grípur 

Langstærsta hindrunin í því að koma út úr skápnum er maður sjálfur, að sögn Ragnhildar. Við það að segja hlutina upphátt sé verið að horfast í augu við hlutina og þá sé ekkert eftir annað en að umfaðma sannleikann og njóta þess sem eftir er.

Hún vildi gjarnan geta fullvissað þá sem eru að hugsa um að koma út úr skápnum að ekkert sé að óttast en því miður sé enn hægt að finna dæmi um annað. Hún segir hins vegar að í samfélaginu sé breiður hópur sem grípi fólk og að „hinsegin samfélagið grípur þig alltaf ef einhver í fjölskyldunni eða gamlir vinir gera það ekki“.  

Ragnhildur Sverrisdóttir sagði skápasögu sína í Sumarmálum á Rás 1. Hægt er að hlusta á allar skápasögurnar hér í spilara RÚV.