Glerárkirkja mögulega hýrasta kirkja landsins

Mynd með færslu
 Mynd: Anna Þorbjörg Jónasdóttir - RÚV

Glerárkirkja mögulega hýrasta kirkja landsins

03.08.2022 - 08:53

Höfundar

Glerárkirkja er sennilega hýrasta kirkja á Íslandi um þessar mundir en þar eru núverandi sóknarprestur, fráfarandi prestur og nýráðinn prestur, öll á hinsegin rófinu.

Táknrænt að hinsegin prestur skuli ráðinn á hinsegin dögum

Helga Bragadóttir hefur verið ráðin sem prestur við Glerárkirkju. Tímasetning ráðningarinnar má segja að sé nokkuð táknræn, en í vikunni hófust hinsegin dagar og Helga er stoltur hluti af hinsegin samfélaginu. „Þegar losnaði í Glerárkirkju var ég ótrúlega spennt, ég náttúrulega vissi að Sindri væri þarna hluti af hinsegin rófinu og það var bara alger draumur að fá að vinna með honum og vinna í þessari kirkju,“ segir Helga.

Sjá einnig: „Hér er opinn faðmur og allir velkomnir“

„Mér leið svolítið eins og ég væri komin heim“

Hún segir að þegar hún hóf guðfræðinám sitt árið 2014 hafi hún ekki vitað til neins prests á hinsegin rófinu, en nú séu þau þrjú, öll undir sama kirkjuþaki. Því hafi verið mikill heiður að hljóta ráðninguna. „Ég er svo virkilega spennt bara þegar ég mætti í viðtalið að sjá fallega fánann þarna úti á stéttinni og allt umhverfið, mér leið svolítið bara eins og ég væri komin heim,“ segir Helga.

Horfum á fólk eftir hæfileikum, ekki kynhneigð

Hún segir að þó Glerárkirkja sé sennilega hýrasta kirkja Íslands, sé hún fullviss um að hinseginleikinn sé velkominn í öðrum kirkjum líka. Og Sindri Geir Óskarsson, sóknarprestur Glerárkirkju, segir jákvætt að sjá hvernig viðhorf samfélagsins og kirkjunnar er að breytast og fagnar ráðningu Helgu.

„Ég held þetta sé í raun bara svolítið til merkis um það að, án þess að vera að gera lítið úr því að þetta sé mikilvægt, þá er þetta líka til merkis um að samfélagið er komið þangað að þetta skiptir ekki öllu máli, við erum bara að horfa á fólk eftir hæfileikum og styrkleikum en erum ekki að einblína á kynhneigð fólks,“ segir Sindri.
 

Tengdar fréttir

Norðurland

„Hér er opinn faðmur og allir velkomnir“

Fólk í fréttum

„Þjóðkirkjan eitthvað sem ég átti enga samleið með"

Þúsaldarprestur byrjaði óvart að boða trúna á TikTok