Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Óvenjulega mikil virkni í Grímsvötnum

02.08.2022 - 17:21
Grímsvötn
 Mynd: Atlantsflug - Ljósmynd
Óvenjulega mikil jarðskjálftavirkni mælist nú í Grímsvötnum. Skömmu fyrir miðnætti í gær varð þar skjálfti, 3,6 að stærð. Böðvar Sveinsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að sú virkni sé alls ótengd virkninni á Reykjanesskaga.  

Hann segir að skjálfti af þessari stærðargráðu hafi ekki mælst í Grímsvötnum frá því í desember í fyrra. Vissulega geti mælst skjálftar á stangli en ekki sé hægt að útiloka að skjálftinn í gær sé upphafið að lengri atburðarás.

Ekki hægt að útiloka að virknin endi með gosi

Síðastliðna tvo sólarhringa hafa sex skjálftar mælst við Grímsvötn sem náttúruvársérfræðingar hafa yfirfarið. Flestir þeirra eru þó rétt ríflega einn að stærð.

„Það hafa komið nokkrir skjálftar í Grímsvötnum núna í dag, eftir hádegi í dag, sem eru yfir 1,1 að stærð. Þetta er svona umfram hefðbundna virkni,” segir Böðvar.

Böðvar segir einnig að mögulega geti hlaup orsakast af þeirri virkni sem nú sést. Ef til hlaups kemur þá yrði það þó lítið þar sem stutt er síðan hljóp úr katlinum við Grímsvötn.

Fluglitakóða vegna Grímsvatna hefur verið breytt úr grænum í gulan enda eru Grímsvötn undir Vatnajökli. Gos undir jöklinum yrði alltaf að sprengigosi. Grímsvötn gusu síðast árið 2011 með miklu sprengigosi. 

„Það er svolítið erfitt að segja hvort þetta sé bara smá skjálftavirkni í gangi núna eða hvort þetta verður að einhverju meiru. Þetta er náttúrulega virkt eldfjall þannig það er alltaf möguleiki á því að þetta endi í gosi.”

oddurth's picture
Oddur Þórðarson
Fréttastofa RÚV