Hrinan nú minnir mjög á undanfara gossins í fyrra

Mynd: RÚV - Kristján Þór Ingvarsso / RÚV
Jörð hefur skolfið nánast látlaust í Grindavík síðan hrina jarðskjálfta hófst á Reykjanesskaga á laugardag og íbúar þar hafa orðið fyrir þó nokkru tjóni þegar húsmunir hafa hrunið. Fulltrúar almannavarna í bænum funduðu með vísindamönnum í dag og fóru yfir stöðu mála. 

Vel á sjötta þúsund skjálfta hafa mælst frá því hrinan hófst á laugardag. Nokkrir kröftugir skjálftar hafa verið í morgun, sá síðasti fjórir að stærð rétt eftir klukkan ellefu. Upptök þessara skjálfta eru á svipuðu svæði og í hrinunni í febrúar og mars í fyrra. Jörð skalf hressilega í þrjár vikur í aðdraganda síðasta eldgoss á Reykjanesskaga.

Eldfjallafræðingur segir líklegast að ef það gýs eftir þessa hrinu þá komi kvikan upp við Fagradalsfjall. Íbúar Grindavíkur eru beðnir að kynna sér viðbragðsáætlanir. 

Rýmingaráætlanir til reiðu

Fréttastofa ræddi við Fannar Jónasson, bæjarstjóra Grindavíkur, sem sat fundinn með almannavörnum. 

„Það er nú fyrst og fremst verið að fara yfir stöðuna. Og vísindamenn eru að reyna að greina þær mælingar og þær niðurstöður sem mælitækin sýna okkur og hvers má vænta í framtíðinni. Eins og sakir standa þá er ekki að sjá að það sé nein aðlögun eða landris en það á eftir að greina betur gögn og það er fyrst og fremst verið að fylgjast með. Og almannavarnateymið er núna að stilla saman strengi sína og undirbúa enn betur það sem við þurfum hugsanlega að bregðast við ef til þess kæmi,” segir Fannar.

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur.

Hvað með viðbragðsáætlanir eða rýmingar eða eitthvað slíkt, er það eitthvað sem er rætt á þessum fundi?

„Þær eru í sjálfu sér alveg tilbúnar ef á þarf að halda, slíkar áætlanir. Það er til dæmis ekki gert ráð fyrir því núna að rýma svæðið upp að gosstöðvunum eða þar sem þessir jarðskjálftar eru né heldur að takmarka för ferðafólks þangað. En það er bara fylgst vel með þessu og ef það fer eitthvað að benda til þess að kvika sé að komast upp á yfirborðið þá verður farið í einhvers konar slíkar takmarkanir hugsanlega en á þessu stigi er ekki talin ástæða til þess.”

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Ekki hægt að útiloka að skaginn lokist

Þegar gosið við Fagradalsfjall í fyrra, 19. mars, var jörð búin að skjálfa í nokkrar vikur. Hrinan hófst um mánaðamótin febrúar/mars og þegar líða tók á marsmánuð mældust nokkur þúsund skjálftar á svæðinu hvern sólarhring, svipað og núna.

Edlfjallafræðingur óttast að Reykjanesskagi lokist algjörlega ef til stórs goss kæmi. Mögulegt sé að báðir vegir, sunnan- og norðanmegin á skaganum, fari undir hraun.

„Ég hef áhyggjur af þessu vegna þess að við erum komin inn í gostímabil og við getum ekki útilokað þann möguleika að við fáum gos sem tekur út báða vegi, við þurfum að hugsa þetta til framtíðar. Og það er of seint að byrja þegar gosið er byrjað, við þurfum að byrja á þessu núna,” sagði Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði, í viðtali við fréttastofu í gær. Hann telur að kvika komi upp við Fagradalsfjall ef til goss kemur.