Ekki viss hvað yrði dæmt í dag

Mynd: RÚV / RÚV

Ekki viss hvað yrði dæmt í dag

30.07.2022 - 19:27
Hinn 42 ára gamli Alexander Petersson hætti handknattleiksiðkun í vor. Hann er einn af farsælustu leikmönnum íslenska landsliðsins, var til að mynda valinn íþróttamaður ársins 2010. Hann lék með Düsseldorf, Grosswallstad, Füchse Berlin, Rhein Neckar Löwen, Flensburg og Melsungen í þýsku úrvalsdeildinni. „Ég var bara heppinn,“ segir hann um hraðaupphlaupið fræga gegn Pólverjum á EM 2010.

Alexander segist kveðja ferilinn sáttur. „Mér líður bara mjög vel og er enn þá í sumarfríi. Ég ætla að sjá til hvað gerist.“ Hann segist hafa fundið að tími væri kominn til að hætta. „Þetta var ekki erfitt. Ég fann alveg að þetta var rétti tíminn til að gera það. Fjölskyldan var líka til í að ég færi að hætta svo ég hefði meiri tíma fyrir hana.“

Alexander ætlar að taka sér frí frá handbolta næstu misseri hið minnsta. „Handbolti er ekki það skemmtilegasta sem ég geri eða hugsa um akkúrat núna. Ég held ég taki pásu í eitt til tvö ár frá handbolta og sé svo til hvað gerist,“ segir hann.

„Ég var bara heppinn“

Þeim sem fylgst hafa með landsliðinu í gegnum árin er líklega enn í fersku minni lokamínútur leiks Íslands og Póllands um bronsið á Evrópumótinu 2010. Ísland tapaði þá boltanum tveimur mörkum yfir og ein og hálf mínúta eftir. Pólverjar brunuðu í sókn en Alexander náði á einhvern ótrúlegan hátt og hlaupa uppi sóknarmann Pólverja og slá frá honum boltann þegar hann var sloppinn einn í gegn. Ísland vann leikinn og fagnaði bronsinu.

Ég sé að hann grípur boltann og er svona 15-20 metrum frá markinu. Þá hugsa ég, „hann verður að drippla einu sinni.“ Þetta var móment til að stela boltanum,“ segir Alexander. „Þú verður að hoppa áður en hann byrjar að drippla. Ef hann er byrjaður að drippla þá ertu of seinn.“

Alexander segist hafa gert þetta ósjálfrátt. „Ég hafði aldrei hugsað um þetta.“  

Sóknarmaður Pólverja flaug á hausinn þegar Alexander sló boltann frá honum. Dómararnir dæmdu þó aðeins innkast fyrir Pólverja en einhverjir hefðu dæmt víti og gefið Alexander tvær mínútur vegna afleiðinganna. Þá er spurning hvað yrði dæmt í dag. „Núna myndu þeir kíkja á vídeó. Ég veit það ekki. Ég fór í bolta sem hann var með eina hendi á. Það er erfitt að segja. Ég var bara heppinn.“