Betra að eiga sviðið sjálfur og vera áberandi

Mynd: RÚV / RÚV

Betra að eiga sviðið sjálfur og vera áberandi

30.07.2022 - 09:00

Höfundar

„Jólabókaflóðið er þannig að það koma út hundruð bóka á örfáum vikum sem eiga að seljast, allar, eftir klukkan átta á Þorláksmessu. Það er mjög hætt við að einhverjir drukkni,“ segir Egill Örn Jóhannsson framkvæmdarstjóri Forlagsins. Þá getur verið skynsamlegra að gefa út á öðrum árstíma og eiga sviðið.

Hvað er huggulegra en að skella sér í útilegu eða upp í bústað vopnaður góðri bók? Eða taka jafnvel bókmenntirnar með sér til útlanda og lesa æsispennandi reyfara á sólarströnd?  

Þekkt er að bóksala sé hvað mest yfir jólavertíðina en á undanförnum árum hefur færst í aukana að bækur séu gefnar út allan ársins hring. Egill Örn Jóhannsson framkvæmdastjóri Forlagsins ræðir þessa þróun bóksölu og útgáfu.  

„Það er ekki til neitt betra“ 

Bækur seljast almennt vel yfir sumartímann að sögn Egils. „Við urðum reyndar fyrir töluverðum áhrifum af covid,“ segir hann í samtali við Guðrúnu Dís Emilsdóttur og Gísla Martein Baldursson í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. Sala á bókum fari fram í miklu mæli á flugvöllum og fundu því bóksalar vel fyrir því þegar fólk ferðaðist minna.  

„Það er mikil hefð að fólk fari til Spánar með bækur. Ég var sjálfur á Spáni og las fjórar eða fimm bækur,“ segir Egill. Veðurspáin getur varla talist spennandi yfir verslunarmannahelgina og spyr því Egill hvað sé notalegra en að vera með bók inni í tjaldi eða í bústaðnum. „Það er ekki til neitt betra leyfi ég mér að segja.“ 

Margir vinsælustu höfundarnir að gefa út núna 

Um þessar mundir er útgáfa bóka gríðarlega mikil og telur Egill að hún hafi sjaldan verið meiri. „Og hún er fyrir alla. Þetta eru ekki bara afþreyingarbækur og skandinavískir krimmar,“ segir hann. Heldur séu þetta handbækur af ýmsu tagi og barna og unglingabækur.  

„Margir af okkar vinsælustu höfundum eru að gefa út um þessar mundir,“ segir hann og má þar nefna Gunnar Helgason, Ævar Þór Benediktsson, Stellu Blómkvist og Einar Kárason. „Það er gríðarleg útgáfa á Íslandi allan ársins hring.“ 

„Það er mjög hætt við því að einhverjir drukkni“

Egill segist ekki biðja höfunda að bíða til jóla með bækurnar sínar. „Jólabókaflóðið er þannig að það koma út hundruð bóka á örfáum vikum sem eiga að seljast, allar, eftir klukkan átta á Þorláksmessu. Það er mjög hætt við því að einhverjir drukkni.“  

„Við höfum verið að ræða við okkar höfunda að í mörgum tilvikum getur það verið skynsamlegt að koma út á öðrum árstíma, eiga sviðið og vera áberandi,“ segir Egill. „Það er svo algengt því miður að í þessari rosalegu útgáfu fyrir jólin að frábærar bækur týnast.“ 

Jólabókaflóðið hornsteinn í íslenskri útgáfu 

Ísland er algjörlega sér á báti þegar kemur að jólabókaflóðinu og vægi þess á bókamarkaðnum. Egill segir að Íslendingar fái að meðaltali þrjár bækur í jólagjöf hver. „Þetta þekkist hvergi annars staðar. Enda er þetta alger, eins og gefur að skilja, hornsteinn þegar kemur að því að gefa út bækur í þessu litla málsamfélagi okkar.“ 

Ekki tíðkist lengur að vetrarbækurnar séu endurútgefnar að vori til í kilju líkt og algengt var fyrir 15 árum. Frumútgáfurnar hafi algjörlega tekið völdin og í dag sé þetta mjög sjaldgæft. „Við erum bara farin að gefa út nýtt efni á öðrum árstíma. Þannig lesendur hafa alltaf glænýtt efni úr að velja.“ 

Leita langt aftur í katalóginn  

Nú hefur hljóðbókin verið að sækja í sig veðrið og telur Egill um helgina munu tugþúsundir Íslendinga keyra út á land hlustandi á sögu. „Það er hljóðbókabylting í gangi á Íslandi,“ segir Egill og eru hundruð titla gefin út á hverju ári. 

Hann segir að hlustun Íslendinga mælist í tugum þúsunda klukkutíma á sólarhring. „Ég leyfi mér að giska að Forlagið gefi út hátt í 300 hljóðbækur á þessu ári,“ segir Egill. „Við erum að leita langt aftur í katalóginn okkar og gefa út bækur sem hafa ekki verið fáanlegar árum, jafnvel áratugum, saman út á hljóðbók.“  

Að hans mati sé þessi þróun af hinu góðu. „Þetta er algjörlega frábært. Ég tala nú ekki um fyrir þá sem eru prentleturshamlaðir, að hafa aðgang að öllum þessum hljóðbókakosti er algjörlega ómetanlegt,“ segir hann. Þau sjái það að börn og jafnvel fullorðnir hlusti gjarnan á sama efnið aftur og aftur. „Og allt á íslensku.“ 

Fór ekki út með fullan poka af bókum 

Einnig heldur lestur á rafbókarformi áfram að vera vinsæll og segir Egill að Forlagið gefi út allar sínar bækur bæði á prenti og rafrænt. „Þegar ég var á Spáni þá fór ég ekki út með fullan poka af bókum heldur var ég með kindilinn minn og setti inn í hann fullt fullt af bókum. Svo hélt ég bara á spjaldtölvunni og las.“  

Undanfarin tíu ár hefur Forlagið lagt mikinn metnað í að fara langt aftur í söguna og taka heilu höfundarverkin og koma þeim á framfæri sem rafbók. Þannig lifi eldri bækur áfram þrátt fyrir að þær séu ekki lengur fáanlegar á prenti.  

Útgáfuheimurinn fer því ekki í dvala yfir sumartímann líkt og margir telja.  

Rætt var við Egil Örn Jóhannsson í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.  

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Útgáfa hljóðbóka hefur hundraðfaldast