Leggja áherslu á umferðareftirlit um helgina

Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Kristjánsson - RÚV
Nú er verslunarmannahelgin að bresta á og landsmenn sækja bæjarhátíðir víða um land. Hátíðarhöld verða á Akureyri og í Fjallabyggð um helgina en nokkur viðbúnaður er hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra. Sérstök áhersla verður lögð á umferðareftirlit og verður meðal annars fylgst með umferðinni úr þyrlu.

Hafa bætt í eftirlit og mannskap

Í umdæmi lögreglunnar á Norðurlandi eystra eru þrjár hátíðir um helgina. Stærst af þeim er Ein með öllu á Akureyri og svo er Síldarævintýrið á Siglufirði og Berjadagar í Ólafsfirði. Aðalsteinn Júlíusson aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra var önnum kafinn við að skipuleggja helgina þegar við hittum hann í morgun.

„Sko við erum aðeins að auka í mannskap, bæði á daginn og kvöldin, við erum með öflugt umferðareftirlit. Við erum til dæmis með í dag og á morgun landhelgisgæsluþyrluna hjá okkur í umferðareftirliti. Svo á morgun er talsvert um að vera, Súlur Vertical til dæmis og við reiknum svona þrátt fyrir veðurútlit með einhverju fólki í bæinn svo að við höfum aðeins bætt í eftirlitið og mannskapinn,“ segir Aðalsteinn.

Veitir ekki af því að halda niðri hraðanum vegna aksturaðstæðna

Það er ekki góð veðurspá fyrir helgina á Norður- og Austurlandi, en hátíðahaldarar eru tilbúnir með þétta dagskrá og halda sínu striki. Og lögreglan þarf að fylgjast með stóru svæði.

„Það er búið að setja út sólarhringsvaktir í Fjallabyggð, það er allavega aukið eftirlit þar líka. Við erum náttúrulega með Húsavík hérna austan við okkur og þar er ágætlega mannað líka um helgina. Það er mikið af fólki á ferðinni, þannig aðallega erum við að einblína á hraðann núna og reyna að vera forvörn í því. Miðað við veðurútlit held ég að veiti ekki af því að halda niðri hraðanum, akstursaðstæður verða ekkert endilega allt of góðar um helgina,“ segir Aðalsteinn.