Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Gjöld taki ekki nægilegt mið af umfangi einkaþota

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Gríðarleg aukning hefur orðið á komu einkaflugvéla hingað til lands, segir framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla. Núverandi gjaldskrá fyrir stæðisgjöld þeirra taki ekki mið af þessari þróun. Ferðamáti þeirra sem fljúga með einkavélum mengar margfalt á við þá sem nota áætlunarflug.

Í vikunni greindi fréttastofa frá því að það væri margfalt ódýrara að leggja einkaþotu á Reykjavíkurflugvelli heldur en á flugvöllum við aðrar höfuðborgir á Norðurlöndunum. Þá var meira en helmingi dýrara að leggja einkaþotu í Osló og Stokkhólmi, og allt að átta sinnum dýrara að leggja henni í Helsinki.

Gjaldskráin of föst

Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdarstjóri Isavia Innanlandsflugvalla, segir að gjaldskrá flugvalla þurfi að gilda jafnt um alla. Ekki sé heimilt að rukka eitt gjald fyrir einkaþotur og annað fyrir annars konar flugvélar. Núverandi gjaldskrá var samþykkt 2016 og hefur stæðisgjald hækkað árlega í samræmi við vísitölu síðan.

„Það þarf að skoða þetta í stærra samhengi,“ segir Sigrún. Hún segir að gjaldskráin á íslenskum flugvöllum sé sambærileg gjaldskrám í Grænlandi og Færeyjum.

„Stundum geta gjaldskrár verið þannig að þær fæli frá, og mér finnst eins og Helsinki-gjaldskráin sé þannig að þeir séu að reyna að beina þessari umferð á aðra flugvelli,“ segir Sigrún.

Engu að síður segir hún að gjaldskránni hér á land sé ekki ætlað að vera hvetjandi fyrir umferð hér á landi.

„Við höfum séð síðustu ár, að við séum að koma út úr heimsfaraldri þar sem var algjört fall í þessum geira. Fyrir heimsfaraldur var þessi traffík heldur stöðug og á hægri uppleið. Núna sjáum við sprengju í komu einkaflugvéla. Ferðamáti aðila hefur breyst og menn eru að nota þessi þægindi í auknum mæli,“ segir Sigrún.

„Kannski er gjaldskráin okkar of föst. Hún tekur ekki nægilega tillit til breytinga í okkar ytra umhverfi og það er eitthvað sem við viljum skoða og ræða við ráðuneyti.“

Stefnt er að því að endurskoða gjaldsrá Isavia á næsta ári þegar þjónustusamningur íslenska ríkisins við Isavia um rekstur innanlandsflugvalla verður endurskoðaður. Núverandi samningur rennur út í lok árs 2023.

Menga allt frá fimm til fjórtán sinnum meira

Á árunum 2005 til 2019 jókst notkun á einkaþotum á heimsvísu um 31%. Umferðin minnkaði mikið þegar kórónuveirufaraldurinn skall á en eftir að ferðatakmörkunum var aflétt fór einkaþotuumferð afar geyst af stað. Og það hefur sín áhrif.

Umhverfisstofnun gerir ráð fyrir að meðalstór farþegaflugvél losi um 370 kg af koltvísýringi á hvern farþega þegar flogið er frá Keflavíkurflugvelli til Kaupmannahafnar. Samkvæmt nýlegri rannsókn losa einkaþotur allt frá fimm sinnum til fjórtán sinnum meira á hvern farþega. Þegar einkaþota flýgur fram og til baka frá Kaupmannahöfn getur losun á hvern farþega því verið frá um 1.850 kg til 5.180 kg af koltvísýringi. 

Skrýtin forgansröðun

Alexandra Briem, formaður umhverfis- og skipulagsráðs, segir að það skjóti skökku við að það kosti svo lítið að leggja einkaþotu á Reykjavíkurflugvelli.

„Auðvitað finnst manni það skrýtið að á besta stað í miðborg Reykjavíkur, þar sem við viljum uppbyggingasvæði til lengri tíma, að það sé verið að nota það til að geyma einkaþotur. Manni finnst það skrýtið,“ segir Alexandra.