Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Fyrstu kornflutningaskipin tilbúin til brottfarar

epa10092611 A combine harvester collects wheat in a field near Obukhiv city, Kyiv region, 26 July 2022. Kyiv and Moscow signed a landmark deal on 22 July to resume Ukrainian grain exports from Black Sea ports which would ease an international food crisis. Nevertheless, the day after on 23 July a Russian missile hit the southern Ukrainian sea port of Odesa. Russian troops on 24 February entered Ukrainian territory, starting a conflict that has provoked destruction and a humanitarian crisis.  EPA-EFE/ROMAN PILIPEY
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Fyrstu skipin sem flytja korn frá Úkraínu gætu lagt upp þegar á morgun föstudag. Fulltrúar Sameinuðu þjóðanna greina frá þessu en þó á enn eftir að ákveða siglingaleið skipanna.

Martin Griffiths, framkvæmdastjóri mannúðarmála hjá Sameinuðu þjóðunum, segir skipin tilbúin til brottfarar en að Úkraínumenn og Rússar eigi enn eftir að koma sér saman um hvaða leið þau fari yfir Svartahaf.

Sameinuðu þjóðirnar og stjórnvöld í Tyrklandi leiddu viðræður um kornútflutning frá Úkraínu en samkomulag náðist síðasta föstudag. Vonir standa til að með útflutningi korns þaðan megi draga úr yfirvofandi ógn vegna matvælaskorts í heiminum. 

Úkraínumenn heita því að fylgja flutningaskipunum um hættuleg hafsvæði þar sem tundurdufl gætu leynst og Rússar lofa að gera hvorki árásir á þau né hafnir í Úkraínu.

Tyrkir og Sameinuðu þjóðirnar fylgjast með flutningunum og tryggja að skipin verði ekki notuð til að smygla vopnum inn á stríðshrjáð svæðið. Griffiths kveðst vongóður um að verði farið að fullu eftir samkomulaginu geti kornútflutningur frá Úkraínu náð svipuðum hæðum og fyrir innrás Rússa.

Það þýðir að þaðan verði fluttar fimm milljónir tonna af korni í hverjum mánuði en tuttugu milljón tonn úr uppskeru síðasta árs bíða enn brottflutnings.