Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Fjöldi stofnana býður ekki lengur þungunarrof

epa10032769 Abortion rights activists protest outside the Supreme Court in Washington, DC, USA, 24 June 2022. The US Supreme Court ruled on the Dobbs v Jackson Women's Health Organization, overturning the 1973 case of Roe v Wade that guaranteed federal abortion rights.  EPA-EFE/MICHAEL REYNOLDS
 Mynd: EPA
Að minnsta kosti 43 heilbrigðisstofnanir víðs vegar um Bandaríkin eru hættar að bjóða konum upp á þungunarrof. Það gerist í kjölfar úrskurðar hæstaréttar sem felldi í lok júní úr gildi stjórnarskrárvarinn rétt kvenna til þungunarrofs.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Guttmacher stofnunarinnar sem styður rétt kvenna til þungunarrofs. Þar kemur einnig fram að ellefu ríki hafa þegar bannað þungunarrof ýmist eftir sjöttu viku meðgöngu eða algerlega.

Í Texas hefur 23 stöðvum verið lokað eða starfsemi breytt, fimm í Oklahoma og Alabama. Dómsmálið sem leiddi af sér niðurstöðu hæstaréttar sneri að Jackson heilbrigðisstofnuninni í Mississippi sem var lokað 7. júlí.

Hún gekk undir heitinu Bleika húsið og var eina stofnunin sem annaðist þungunarrof í ríkinu.

Höfundar skýrslu Guttmacher stofnunarinnar segjast óttast að víða um Bandaríkin eigi enn eftir að þrengja að aðgengi kvenna að þungunarrofi og að líklegt sé að það verði bannað í fleiri ríkjum á komandi vikum og mánuðum. 

Jafnvel er búist við að helmingur Bandaríkjanna banni að lokum þungunarrof, einkum suður- og miðvesturríkin.

Þungunarrof er bannað í ríkjunum Louisiana og Norður-Dakota en langvinn málaferli hafa hægt á beitingu þeirra laga. Sérstakt stjórnlagaþing hefur verið kallað saman í nokkrum ríkjum, þeirra á meðal Indiana, sem ætlað er að setja ný lög um framkvæmd þungunarrofs.