Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Sýnataka úr gámi

Mynd með færslu
 Mynd: Anna Þorbjörg Jónasdóttir - RÚV
Um þrjú til átta hundruð manns fara í covid-próf hjá heilbrigðisstofnunum á dag. Hlutfall jákvæðra sýna hefur lækkað sem og nýgengi smita. Aðstæður til sýnatöku hafa breyst og ekki er lengur þörf á stóru húsnæði. 

Þurfa ekki að fara út úr bílum sínum

Við slökkvistöðina á Akureyri standa nokkrir bílar í röð fyrir utan gám þar sem verið er að taka covid-sýni. Ökumenn skrúfa niður rúðuna og hjúkrunarfræðingar taka sýnin á meðan fólk situr inni í bílum sínum. Í gámnum er gengið frá sýnunum. 

Sigríður Dagný Þrastardóttir, verkefnastjóri covid á Akureyri segir að allir séu ánægðir með fyrirkomulagið.  

Mynd með færslu
 Mynd: Anna Þorbjörg Jónasdóttir - RÚV
Bílaröðin

Mun færri sýni tekin

Sýnatakan úr gámnum byrjaði 1. júlí og segir Sigríður að áætlað sé að það verði gert áfram fram að áramótum. 

„Það eru ekkert mjög margir sem koma núna. Það er búið að minnka töluvert. Þetta var svona hæsta 50-60 sýni á dag sem við tókum í upphafi en núna erum við að detta alveg niður í 20 í dag,“ segir Sigríður.

Hún segir að þeir sem komi séu með einkenni. „Fólk vill pínu fá þetta skráð og staðfest að þau séu með covid. Margir eru að ferðast þannig að þeir eru að koma að utan.“

Mynd með færslu
 Mynd: Anna Þorbjörg Jónasdóttir - RÚV
Þeir sem taka sýnin eru ekki lengur klæddir hlífðargalla

Bara með grímur og hanska

Sigríður segir að það sé gott að vera komin úr fullum hlífðargalla við sýnatökurnar eins og var þegar þær voru gerðar innanhúss. 

„Já nú erum við að njóta þess að vera úti í ferska loftinu í sumar. En við erum bara með hanskana og grímur.“

Hlutfall greindra sýna fer lækkandi

Hvert er hlutfall jákvæðra greindra sýna?

„Núna er það aðeins dottið niður en það er alveg enn þá 80% jákvætt. Flestir eru nú heldur ekki að koma hingað í próf en mér fannst í byrjun júlí svolítil aukningin vera að koma. Nú er það komið aftur að fólk er að taka heimaprófin sem er bara gott,“ segir Sigríður.

Mynd með færslu
 Mynd: Anna Þorbjörg Jónasdóttir - RÚV
Aðstaðan í gámnum