Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Hagnaður Arion banka 9,7 milljarðar króna

28.07.2022 - 02:16
Arion Banki, Borgartún
 Mynd: Arion banki
Rekstur Arion banka skilaði rúmlega 9,7 milljarða króna hagnaði á öðrum ársfjórðungi ársins 2022. Þetta er ríflega tveggja milljarða betri afkoma en á sama ársfjórðungi árið 2021, en þá skilaði rekstur bankans ríflega 7,8 milljörðum króna afgangi.

Í tilkynningu Arion banka til Kauphallarinnar þar sem afkomu bankans er gerð skil, kemur fram að áhrif á sölunni á Valitor komi að fullu fram á öðrum ársfjórðungi ársins 2022. Var söluverð félagsins 14,6 milljarðar króna, eða 112,5 milljónir bandaríkjadala, sem skilar bankanum 5,6 milljarða söluhagnaði.

Arðsemi eiginfjár bankans var 21,8% samanborið við 16,3% á öðrum ársfjórðungi ársins 2021. Hagnaður á hlut var 6,47 krónur, samanborið við 4,89 krónur á sama tímabili fyrir ári. Tekjur af kjarnastarfsemi jukust um 23,5% samanborið við annan ársfjórðung ársins 2021.

Salan á Valitor lykilatriði

Benedikt Gíslason bankastjóri Arion banka, segir í tilkynningunni að fyrir afkomu bankans á fyrri helmingi ársins, skipti mestu að kjarnastarfsemin haldi áfram að þróast með jákvæðum hætti. Þá hafi munað verulega um söluna á Valitor. 

„Kjarnatekjur bankans aukast um tæp 24% á milli ára ef horft er til annars ársfjórðungs og vegur aukning í vaxtatekjum þar þyngst. Jafnframt náðist góður árangur á fjórðungnum þegar kemur að þóknanatekjum sem hafa ekki verið hærri á einum fjórðungi og má rekja það meðal annars til mikilla umsvifa í fyrirtækjaráðgjöf og eignastýringu,“ segir Benedikt.

Hann segir að á móti komi að aðstæður á fjármálamörkuðum hafi verið krefjandi sem hafi haft neikvæð áhrif á fjármunatekjur í starfseminni. Eigin- og lausafjárstaða bankans sé þó áfram sterk. 

Áhersla á sjálfbærni í rekstri

Benedikt segir að bankinn leggi áherslu á að starfa með sjálfbærum og ábyrgum hætti sem og að leitast við að hafa jákvæð áhrif á samfélag og umhverfi. Bankinn hafi nýverið fengið niðurstöðu úr UFS-áhættumati alþjóðlegs matsfyrirtækis, sem sérhæfi sig í mati á áhættu fyrirtækja þegar kemur að umhverfismálum, félagslegum þáttum og stjórnarháttum.

„Niðurstaða áhættumatsins felur í sér að Arion banki skipar sér á bekk með þeim bönkum í Evrópu og á heimsvísu sem þykja standa hvað best að vígi í þessum efnum. Matið ber með sér að við höfum náð góðum árangri á sviði sjálfbærni og ætlum við okkur að ná enn lengra,“ segir Benedikt Gíslason.

Mynd með færslu
 Mynd: Arion Banki - RÚV
Benedikt Gíslason bankastjóri Arion banka
sigurdurk's picture
Sigurður Kaiser
Fréttastofa RÚV