Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Verkfall hefur áhrif á 134 þúsund farþega Lufthansa

epa09482733 A Lufthansa Airlines Airbus A350-900 lands at the Los Angeles Airport in Los Angeles, California, USA, 22 September 2021.  EPA-EFE/ETIENNE LAURENT
 Mynd: EPA
Verkfall er hafið hjá 20 þúsund starfsmönnum þýska flugfélagsins Lufthansa sem standa á í ríflega sólarhring. Verkfallið hefur áhrif á ferðalög 134 þúsund flugfarþega en yfir þúsund flugferðum hefur verið aflýst.

Næstum öllum ferðum Lufthansa á miðvikudag hefur verið aflýst og allmörgum var aflýst í gær. Boris Ogursky, fréttafulltrúi flugfélagsins, segir verkfallið hafa áhrif á allar ferðir þess til og frá Frankfurt og München.

Verkfallið nær eingöngu til starfsfólks Lufthansa á jörðu niðri en það er verkalýðsfélagið Verdi sem annast samningaviðræður fyrir þess hönd. Fyrstu tillögu Lufthansa um launahækkun var hafnað en samningamenn Verdis hafa samþykkt áframhaldandi viðræður 3. og 4. ágúst.

Starfsfólkið krefst 9,5% launahækkunar í ljósi aukins vinnuálags, vegna verðbólgu og til að bæta fyrir launalækkun meðan á kórónuveirufaraldrinum stóð, að sögn Christine Behle, aðalsamningamanns Verdis.